B6-vítamín
B6-vítamín, eða Pýridoxín, tekur þátt í myndun og umbroti þessara efna í líkamanum: Kolvetna, fitu, amínósýru, kjarnsýra, próteina og hemóglóbíns.
Heiti
B6-vítamín, pýridoxín, pyridoxine.
Uppspretta
Fiskur, kjöt, kjúklingur, heilhveiti, egg og gulrætur. Pýridoxín getur tapast við matreiðslu.
Verkun
Pýridoxín tekur þátt í myndun og umbroti þessara efna í líkamanum: Kolvetna, fitu, amínósýru, kjarnsýra, próteina og hemóglóbíns.
Notkun - verkun
- Við pýridoxín skorti og í blöndu með öðrum B-vítamínum við almennum B-vítamín skorti.
- Við fjöltaugabólgu.
- Talið draga úr einkennum fyrirtíðarspennu.
- Krampastillandi.
Ráðlagðir dagskammtar
Ungbörn < 6 mán | --- |
Ungbörn 6-11 mán | 0,4 mg |
Ungbörn 12-23 mán | 0,5 mg |
Börn 2-5 ára | 0,7 mg |
Börn 6-9 ára | 1,0 mg |
Karlar 10-13 ára | 1,3 mg |
Karlar > 14 ára | 1,6 mg |
Konur 10-13 ára | 1,1 mg |
Konur 14-30 ára | 1,3 mg |
Konur >31 ára | 1,2 mg |
Konur á meðgöngu | 1,5 mg |
Konur með barn á brjósti | 1,6 mg |
*mg = milligrömm
B
6-vítamín skortur
Einkenni pýridoxín skorts geta lýst sér í sprungnum munnvikum, húð flagnar kringum nef og augu, krampakenndum flogum, geðdeyfð, uppköstum, húðbólgum, blóðskorti, taugabólgum og nýrnasteinum. Þungaðar konur eiga á hættu að þjást af pýridoxín skorti, vítamínið er nauðsynlegt fóstrinu og berst til þess frá móður. Misnotkun áfengis getur leitt til skorts á pýridoxíni.
B
6-vítamín eitrun
Taugaskemmdir geta komið fram eftir töku 200 mg/dag eða meira að staðaldri og 2000 mg/dag í skamman tíma. Taugaskemmdir geta lýst sér í dofa í fótum og höndum. Einkennin ganga yfirleitt til baka ef dregið er úr inntöku pýridoxíns en varanlegar taugaskemmdir eftir stóra skammta eru þó vel þekktar.
Aukaverkanir
Óþekktar nema um ofskömmtun sé að ræða.
Milliverkanir
Ýmis lyf geta valdið skorti á pýridoxín, t.d. ísóníazíð (berklalyf), hýdralazín, getnaðarvarnartöflur, penisillamín, neómýcín og rífampicín. Pýridoxín minnkar virkni L-dópa í Parkinson´s meðferð.
Frábendingar
Parkinson´s sjúklingar sem nota L-dópa í lyfjameðferð ættu ekki að taka inn pýridoxín.
Heimildir
R. Marcus, A.M. Coulston. Water-soluble vitamins. Goodman & Gilman´s The pharmacological basis of therapeutics 9th edition. 1996 McGraw-Hill, New York. Bls. 1561-1563, 1549.
H. R. Jóhannesson, S. Ó. Ólafsson. Bætiefnabókin, Handbók um vítamín, steinefni og fæðubótarefni. 1995 Mál og menning, Reykjavík. Bls. 46-50.
www.landlaeknir.is
(Ráðlagðir dagskammtar uppfærðir í febrúar 2014 skv. leiðbeiningum frá Embætti landlæknis; Jóna Valdís Ólafsdóttir, lyfjafræðingur).