Aukaverkanir og milliverkanir
Aukaverkanir og milliverkanir náttúrulyfja, náttúruvara og fæðubótarefna
Notkun náttúrulyfja, náttúruvara og fæðubótarefna til sjálfslækninga, forvarna gegn sjúkdómum og til að bæta útlit nýtur aukinna vinsælda hérlendis. Með aukinni neyslu þessara vara er talið að tilfellum fjölgi þar sem rekja megi orsakir aukaverkana og milliverkana til þeirra.
Úrdráttur úr samnefndu lokaverkefni við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands.
Í verkefninu var ákveðið að skipta náttúruefnum í tvo flokka. Náttúrulyf annars vegar en náttúruvörur og fæðubótarefni hins vegar. Þetta var gert vegna þess að búið er að setja skýra reglugerð hér á landi hvað varðar náttúrulyf en skilin á milli náttúruvara og fæðubótarefna eru aftur á móti óljós og oft getur vara bæði verið túlkuð sem náttúruvara og fæðubótarefni.
Inngangur
Hér á landi hafa fimm náttúrulyf fengið markaðsleyfi en tvö eru komin á markað. Annað inniheldur Jóhannesarjurt en hitt valeriana. Mjög margar náttúruvörur og fæðubótarefni eru á markaði hérlendis en sem dæmi má nefna blómafrjókorn, ginkgó, ginseng, sólhatt og Herbalife. Almenningur telur oft að lækningajurtir valdi ekki aukaverkunum en slík viðhorf geta haft alvarlegar afleiðingar
1. Framleiðendur þurfa ekki að staðfesta öryggi og áhrif náttúruvara og fæðubótarefna áður en varan er markaðssett
2,3 og er gæðaeftirlit einungis haft með þeim vörum sem fengið hafa markaðsleyfi sem náttúrulyf. Þær vörur sem ekki hafa fengið markaðsleyfi sem náttúrulyf eru því af mismunandi gæðum. Milliverkanir náttúruefna við lyfseðilsskyld lyf eru mikið áhyggjuefni
5 en auk þess að valda beinum vandamálum getur náttúruefni seinkað eða breytt áhrifum hefðbundinnar meðferðar
6.
Markmið
Markmið verkefnisins var að kanna tíðni aukaverkana og milliverkana sem raktar hafa verið til neyslu náttúrulyfja, náttúruvara og fæðubótarefna hér á landi. Einnig að kanna hvaða efni valda áðurnefndum verkunum, hver einkennin eru og hversu alvarleg þau eru. Auk þess að kanna viðhorf íslenskra lækna til náttúrulyfja, náttúruvara og fæðubótarefna og athuga hvort munur er á viðhorfi milli aldurshópa og sérgreina.
Framkvæmd
Spurningalisti var sendur í pósti til allra lækna á landinu, alls 1083. Annars vegar var spurt hvort viðkomandi læknir hafi, í sínu starfi, orðið var við aukaverkanir eða milliverkanir sem rekja mætti til neyslu náttúrulyfja, náttúruvara eða fæðubótarefna hér á landi. Hins vegar var spurt um viðhorf lækna til þessara efna.
Ástæður innlagna á Landspítala-háskólasjúkrahús voru athugaðar með því að leita í tölvukerfum eftir ákveðnum sjúkdómsgreiningum. Einnig voru ástæður komu á bráðamóttökur sjúkrahússins athugaðar í einn mánuð. Farið var yfir fyrirspurnir til Eitrunarmiðstöðvar vegna náttúruefna á árunum 1997-2000 og að lokum athugað hvort tilkynningar um ofangreindar aukaverkanir eða milliverkanir hafi borist Lyfjastofnun eða Landlæknisembættinu.
Niðurstöður
Spurningalisti til lækna á Íslandi - Aukaverkanir og milliverkanir
Spurningalistanum svöruðu 410 læknar af 1083 (38%). Þeir læknar sem sögðust hafa / hugsanlega hafa orðið varir við aukaverkanir sem rekja mætti til neyslu náttúrulyfja, náttúruvara og fæðubótarefna voru 134. Greint var frá upplýsingum um 253 aukaverkanir. Á Mynd 1 má sjá tíðni yfir fjölda tilvika fyrir þau efni sem greint var frá að hafi valdið aukaverkun tvisvar eða oftar.
Efnin sem oftast eru talin hafa valdið aukaverkunum eru Herbalife, næst á eftir kemur ginseng, síðan blómafrjókorn, Ripped fuel og sólhattur. Greint var frá að önnur efni hafi valdið aukaverkunum sjaldnar. Á meðal aukaverkana sem talið er að Herbalife hafi valdið eru meltingarfæratruflanir, lifrarbólga, hjartsláttaróregla, höfuðverkur, háþrýstingur, svefnleysi og ofnæmisviðbrögð. Hvað ginseng varðar er það t.d. talið hafa valdið svefntruflunum, kvíða og hjartsláttaróreglu en blómafrjókorn og sólhattur eru t.d. talin hafa valdið ýmsum ofnæmisviðbrögðum. Meðal aukaverkana sem eru taldar stafa af neyslu ólöglega fæðubótarefnisins Ripped fuel eru krampar, hraður hjartsláttur, vanlíðan og svefnleysi.
Algengast er talið að aukaverkanirnar hafi haft nokkur eða veruleg áhrif á sjúklinga. Talið er að innlögn á sjúkrahús sé afleiðing 38 tilvika og að aukaverkun hafi stofnað lífi sjúklings í hættu í 14 tilvikum. Herbalife er oftast talið hafa valdið alvarlegustu aukaverkununum, ginseng kemur þar á eftir, næst sólhattur, Ripped fuel og blómafrjókorn.
Þeir læknar sem sögðust hafa / hugsanlega hafa orðið varir við milliverkanir sem rekja mætti til neyslu náttúrulyfja, náttúruvara og fæðubótarefna voru 25. Margir greindu ekki nánar frá þeim og er fjöldi milliverkana þar sem upplýsingar um efni, lyf og milliverkun komu fram 13 talsins. Oftast höfðu svarendur orðið varir við að Herbalife hafi valdi milliverkunum eða í 6 tilvikum en þar á eftir kom Jóhannesarjurt með 2 tilvik. Það lyf sem oftast virðist verða fyrir milliverkun er blóðþynnningarlyfið warfarín. Milliverkanirnar eru taldar hafa haft ýmist lítil, nokkur eða veruleg áhrif á sjúklinga.
Spurningalisti til lækna á Íslandi - Viðhorf læknanna
Spurt var um hversu oft eða sjaldan sjúklingar nefni að fyrra bragði hvort þeir neyti náttúrulyfja, náttúruvara eða fæðubótarefna. Flestir læknanna eða 47% sögðu að það gerðist sjaldan en 30% sögðu það gerast stundum. Um 37% læknanna sögðust spyrja sjúklinga sína sjaldan hvort þeir neyti náttúrulyfja, náttúruvara eða fæðubótarefna, 25% sögðust gera það stundum, 19% aldrei, 14% oft og 3% alltaf. Þegar spurt var um hversu miklu eða litlu máli læknunum finnst það skipta að sjúklingar nefni neyslu sína á náttúrulyfjum, náttúruvörum og fæðubótarefnum í viðtölum hjá þeim svöruðu 55% að það skipti miklu eða mjög miklu máli. Hlutlausir voru 24% en 21% finnst það skipta litlu eða mjög litlu máli. Flestum læknanna, 40%, finnst það skipta miklu eða mjög miklu máli að sjúklingar hafi samráð við lækni áður en þeir neyta náttúrulyfja, náttúruvara eða fæðubótarefna. Hlutlausir voru 33% en 27% finnst það skipta litlu eða mjög litlu máli. Tæplega 80% læknanna finnst aðgengi upplýsinga um verkun náttúrulyfja, náttúruvara og fæðubótarefna ekki nægjanlegt eða allt of lítið. Meirihlutinn, 84%, telur einnig að læknar á Íslandi hafi frekar litla eða mjög litla þekkingu aukaverkunum og milliverkunum náttúrulyfja, náttúruvara og fæðubótarefna.
Almennt traust til náttúruefna var mjög lítið eða frekar lítið hjá tæplega 70% svarenda en hlutlausir voru um 30%. Um helmingur læknanna ráðleggur sjúklingum sínum aldrei að neyta náttúrulyfja, náttúruvara eða fæðubótarefna og meirihluti læknanna telur að fræðsla til almennings um náttúruefni sé ekki nægjanleg eða allt of lítil.
Flestir læknar sem svöruðu sögðust hafa mestan hluta þekkingar sinnar um náttúrulyf, náttúruvörur og fæðubótarefni úr auglýsingum, næst koma fagtímarit en þar á eftir vísindagreinar, nám, internetið, ráðstefnur og annað. Yngri læknar virðast oftar hafa fengið þekkinguna úr námi en þeir sem eldri eru.
Spurt var hvort læknarnir myndu vilja fræðast meira um náttúrlyf annars vegar og náttúruvörur/fæðubótarefni hins vegar. Þeir sem vilja fræðast meira um náttúrulyf voru 75% en 68% vilja fræðast meira um náttúruvörur og fæðubótarefni. Þegar spurt var hverjir ættu að sjá um fræðslu til lækna á náttúrulyfjum, náttúruvörum og fæðubótarefnum voru gefnar upp sex mögulegar starfstéttir sem hægt var að merkja við og mátti merkja við allt sem við átti. Meirihluti telur að lyfjafræðingar og læknar eigi að sjá um fræðsluna.
Flestir læknanna telja að sjúklingar/almenningur eigi að nálgast náttúrulyf sem lausasölulyf í apótekum en þar á eftir í sjálfsafgreiðslu apóteka eða heilsubúða. Einnig töldu allmargir að þau ætti að ávísa á lyfseðil.
Nokkuð oft var munur á svörum læknanna eftir aldri. Til dæmis virðast yngri læknar líklegri til þess að spyrja sjúklinga sína hvort þeir neyti náttúruefna og þeir virðast líklegri til að vilja meiri fræðslu um efnin en þeir sem eldri eru. Ekki var mikill munur milli svara hjá mismunandi sérgreinum læknanna. Þó skáru skurðlæknar sig nokkuð úr t.d. með því að vilja síður fá fræðslu um náttúruefni heldur en aðrir.
Aðrir liðir rannsóknarinnar
Athugun á ástæðum innlagna á Landspítala-háskólasjúkrahús eftir ákveðnum sjúkdómsgreiningarnúmerum leiddi í ljós að í skráningarkerfinu er afar erfitt að finna tilvik þar sem innlagnir hafa verið raktar til neyslu náttúruefna.
Eftir daglega athugun í einn mánuð á bráðamóttökur Landspítala-háskólasjúkrahúss var ekki unnt að rekja neinar komur þangað til neyslu náttúruefna. Fjöldi fyrirspurna vegna náttúruefna til Eitrunarmiðstöðvar á árunum 1997-2000 var 26 en auk þess voru um 15 fyrirspurnir vegna Ripped fuel.
Aðeins ein formleg tilkynning hefur borist Lyfjastofnun/Landlækni um aukaverkun náttúruefnis.
Ályktun
Svörun spurningalistans gefur til kynna að að auka- og milliverkanir náttúruefna séu vanskráðar hérlendis því greint var frá mörgum aukaverkunum og þar af voru á sjötta tug mjög alvarlegar. Af spurningalistanum er þó ekki hægt að meta líkindi þess að auka- eða milliverkanirnar hafi átt sér stað því ekki er vitað á hvaða hátt læknarnir greindu þær. Oft er erfitt að greina milliverkanir sem skýrist ef til vill að hluta til af því að sjúklingar virðast greina læknum sínum sjaldan frá notkun náttúruefna og læknarnir virðast spyrja sjaldan um þá notkun. Skráningarkerfi Landspítala-háskólasjúkrahúss hentar ekki fyrir innlagnir af þessu tagi og læknar hafa ekki tilkynnt þau tilvik sem þeir hafa orðið varir við. Auka þarf fræðslu til lækna, annars starfsfólks í heilbrigðisþjónustu og almennings um aukaverkanir og milliverkanir náttúrulyfja, náttúruvara og fæðubótarefna.
Leiðbeinendur verkefnisins voru:
Kristín Ingólfsdóttir, prófessor Lyfjafræðideild
Magnús Jóhannsson, prófessor Læknadeild.
Heimildir:
1. Ernst E., Rand JI., Stevinson C. Complementary therapies for depression. Archives of General Psychiatry, 55:1026-1032, 1998.
2. Cupp MJ. Úrdráttur: Herbal remedies: adverse effect and drug interactions. American Family Physician, 59(5):1239-45, 1999.
3. De Smet PAGM. An introduction to herbal pharmacoepidemiology. Journal of Ethnopharmacology, 38:197-208, 1993.
4. Shaw D., Leon C., Kolev S., Murray V. Traditional remedies and food supplements. A 5-year toxicological study (1991-1995). Drug Safety, 17(5):342-356, 1997.
5. Heck AM., Dewitt BA., Lukes Al. Potential interaction between alternative therapies and warfarin. Americal Journal of Health-system Pharmacy, 57(13):1221-1227, 2000.
6. De Smet PAMG. Adverse effects of herbal remedies. Adverse Drug Reaction Bulletin, 183:695-698, 1997.