Asídófílus
Asídófílus, sem á íslensku getur kallast sýrukær, er gagnlegur gerill (baktería) sem lifir í mannslíkamanum undir eðlilegum kringumstæðum.
Gerillinn er tekinn í því skyni að stuðla að heilbrigði meltingarvegar og til að koma á jafnvægi í gerlaflóru legganga og smáþarma eftir sýklalyfjakúr.
Fræðiheiti Lactobacillus acidophilus.
Önnur heiti Sýrukær.
Enskt heiti Acidophilus.
Einkunn
3 = Rannsóknir á virkni og öryggi þessa efnis stangast á eða þær eru ekki nægilega miklar til þess að hægt sé að draga af ályktanir af niðurstöðum þeirra.
Hvað er asídófílus?
Asídófílus, sem á íslensku getur kallast sýrukær, er gagnlegur gerill (baktería) sem lifir í mannslíkamanum undir eðlilegum kringumstæðum. Latneska heitið
Acidophilus er stundum einnig haft um aðra gagnlega gerla sem lifa í mannslíkamanum, t.d. mjólkursýrugerillinn
Lactobacillus bulgaricus.
Notkun
Undir eðlilegum kringumstæðum lifir asídófílus í leggöngum og meltingarvegi heilbrigðs fólks. Hann er í hópi þeirra gerla sem eru hagstæðir fyrir mannslíkamann. Í sumum heimildum er mælt með því að taka fæðubótarefni með asídófílusi til að tryggja nægilegt magn af gerlinum, bæði til að viðhalda heilbrigðum meltingarvegi og koma í veg fyrir sjúkdóma þar. Margir mæla með því að fæðubótarefni með gerlinum séu tekin meðan á sýklalyfja- eða súlfalyfjakúr stendur, og þegar fara þarf í geislameðferð, þar sem hvor tveggja lyfin og geislarnir eyða vinveittu gerlunum og þannig getur orðið röskun á hinu viðkvæma jafnvægi sem ríkja þarf í gerlaflóru líkamans. Í sumum heimildum er því haldið á lofti að fæðubótarefni með asídófílusi geti komið í veg fyrir niðurgang ferðalanga, bætt meltingu, dregið úr hættu á ristilkrabbameini, minnkað kólesteról í blóði, haldið frunsum í skefjum, ráðið bót á mjólkursykuróþoli og afeitrað skaðleg efni. Gegn niðurgangi er sums staðar fáanleg blanda sem inniheldur þurrkaða mjólkursýrugerla af tegundunum
Lactobacillus acidophilus og
Lactobacillus bulgaricus.
Helstu lyfjaform
Hylki, korn, vökvi, duft, töflur. Asídófílusi er oft blandað saman við aðra hagstæða gerla eða bætt í mjólk (þá fæst til dæmis ab-mjólk, þ.e. ef
Bacillus-gerlum er líka bætt í), jógúrt og matvöru aðra en mjólkurvörur.
Algeng skammtastærð
Algengur dagskammtur er um 200 grömm af jógúrt sem inniheldur lifandi asídófílus, eitt sýruhúðað hylki sem inniheldur tvo eða þrjá milljarða lífvænlegra gerla eða hálf til ein teskeið af dufti eða vökva. Þegar notaðar eru keyptar blöndur með asídófílusi skal fara eftir leiðbeiningum á pakkningunum. Forðast skal að taka inn afurðir, sem innihalda lifandi gerla, innan tveggja klukkutíma frá því að sýklalyf var tekið.
Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Smám saman hafa vísindalegar vísbendingar um gagnsemi þess að taka fæðubótarefni með asídófílusi í tilteknum tilgangi safnast saman. Gerillinn er þá tekinn í því skyni að stuðla að heilbrigði meltingarvegar og til að koma á jafnvægi í gerlaflóru legganga og smáþarma eftir sýklalyfjakúr. Efasemdarmenn benda þó á að hætt sé við að gagnsemi þess að taka fæðubótarefnin inn sé lítil þar eð ólíklegt er að gerillinn standist súrleika magans.
1
Sýklalyf geta raskað náttúrlegri flóru meltingarvegarins sem getur leitt til niðurgangs, vökvamissis og fleiri fylgikvilla. Sú hugmynd að hægt sé að fyrirbyggja niðurgang með því að eyða skaðlegu gerlunum með fæðubótarefnum - einkum asídófílusi - hefur verið rannsökuð og niðurstöðurnar eru mismunandi. Þegar farið var yfir rannsóknir um efnið kom í ljós að fæðubótarefni með asídófílusi gætu ef til vill komið að gagni til að fyrirbyggja niðurgang sem tengist sýklalyfjatöku. 2 Niðurstöður rannsókna hafa þó ekki allar verið á eina lund. Samkvæmt könnun, sem var gerð árið 1979 á fimmtíu fullorðnum mönnum, kom dagleg inntaka mjólkursýrugerils ( Lactobacillus) í viku hvorki í veg fyrir niðurgang né stytti hún tímann sem niðurgangur ferðalanga varði, hvorki í þeirri viku né á næstu þremur vikum eftir meðferðina. 3 Enn fremur leiddi rannsókn frá árinu 1981 í ljós að fæðubótarefnið kom hvorki í veg fyrir niðurgang né flýtti bata fólks með niðurgang af völdum kólígerils ( Escherichia coli), þess hundalgenga gerils. 4 Í rannsókn frá árinu 1990 tókst ekki að koma í veg fyrir niðurgang í börnum sem gengust undir meðferð með amoxisillíni með því að gefa þeim asídófílus. 5
Gildi þess að neyta fæðubótarefna með asídófílusi til að meðhöndla magaverk sem stafar af sýrutengdu magasári er sömuleiðis óljóst. Vörur sem innihalda asídófílus hafa a.m.k. bælt vöxt lífvera sem eru taldar valda þessum kvilla (t.d. Helicobacter pylori) í tilraunaglasi. 6 Frekari rannsókna er þó þörf til að ákvarða hvort fæðubótarefni gagnist sem forvörn gegn kvillanum eða við meðhöndlun hans.
Mjólkursýrugerlar á borð við asídófílus hafa lengi verið taldir gagnlegar örverur í leggöngum. Samkvæmt nokkrum umfangslitlum en þó tiltölulega vel útfærðum rannsóknum er hugsanlegt að asídófílus komi í veg fyrir sveppasýkingu í leggöngum sem stafar af ofvexti þruskusveppsins ( Candida albicans). 7 Konur sem neyta nægilegs magns af jógúrt sem inniheldur lifandi asídófílus (a.m.k. einn bolla eða 250 millílítra daglega) geta hugsanlega dregið úr hættu á að fá nýjar sýkingar af þessum toga og þar með hina óþægilegu fylgikvilla, s.s. kláða, þykka, klísturkennda útferð og almenn óþægindi á og við kynfæri. Í rannsókn, sem stóð í sex mánuði, dró greinilega úr tíðni nýrra sýkinga hjá þeim sem fylgdu þessum ráðleggingum. 8 Til þess að ráðið dugi þarf þó lifandi og virkur, lífvænlegur asídófílus að vera til staðar og því miður er mark ekki alltaf takandi á innihaldslýsingu varanna, t.d. að því er varðar jógúrt. 9 Hylki með gerlinum verka hugsanlega jafn vel, en frekari rannsókna er þörf. 10 Rannsakendur hafa einnig komist að því að asídófílus hamlar vexti annarra lífvera í leggöngum, svo sem Escherichia coli og Gardnerella vaginalis, 11 sem geta valdið þvagrásarsýkingu.
Fólk, sem er með mjólkursykuróþol sem lýsir sér í því að það meltir mjólkursykur í mjólkurvörum illa eða ekki, getur hins vegar neytt mjólkurvara sem innihalda asídófílus. 12 Gerillinn auðveldar þeim að melta mjólkursykurinn.
Vísindamenn höfðu bundið vonir við að tiltekin efnasambönd í mjólkursýrugerlum sýndu sams konar hæfni til að binda kólesteról í mönnum og fram hafði komið við rannsóknir í tilraunastofum. 13 Rannsóknaniðurstöður hafa þó ekki verið óyggjandi. Víðtæk rannsókn frá árinu 1989 sýndi engar marktækar, jákvæðar breytingar á kólesteróli sem gætu tengst því að fólk tók asídófílus í formi Lactinex - vöru sem inniheldur bæði Lactobacillus acidophilus og Lactobacillus bulgaricus í töfluformi. Í þessari tvíblindu rannsókn tóku 354 einstaklingar með mikið kólesteról í blóði töflur fjórum sinnum á dag í sex vikur og skiptu síðan yfir í lyfleysu í sex vikur eftir þriggja vikna tímabil þar sem hvorugt var tekið. 14
Engin traust gögn mæla með því að asídófílus sé tekinn til að sporna gegn frunsum 15 eða sem vörn gegn krabbameini.
Skaðleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Læknisfræðilegar heimildir greina hvergi frá eiturviðbrögðum gegn vörum sem innihalda asídófílus. Þeir sem taka sýklalyf ættu að taka asídófílus inn a.m.k. tveimur tímum fyrir eða eftir töku lyfsins.
Meginheimildir American Pharmaceutical Association.
Handbook of Nonprescription Drugs, 11. útg. Washington D.C.: American Pharmaceutical Association, 1996. Balch, J.F. og P.A. Balch.
Prescription for Nutritional Healing: A Practical A to Z Reference to Drug-Free Remedies Using Vitamins, Minerals, Herbs & Food Supplements, 2. útg. Garden City Park, NY: Avery Publishing Group, 1997. Barrett, S. og V. Herbert.
The Vitamin Pushers: How the "Health Food" Industry Is Selling America a Bill of Goods. Amherst, NY: Prometheus Books, 1994.
Lawrence Review of Natural Products. St. Louis: Facts and Comparisons, nóvember, 1991. Mayell, M.
Off-the-Shelf Natural Health: How to Use Herbs and Nutrients to Stay Well. New York: Bantam Books, 1995. Tyler, V.E.
Herbs of Choice: The Therapeutic Use of Phytomedicinals. Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1994.
Tilvísanir 1. S. Barrett og V. Herbert,
The Vitamin Pushers: How the "Health Food" Industry Is Selling America a Bill of Goods. (Amherst, NY: Prometheus Books, 1994). 2. G.W. Elmer et al.,
Journal of the American Medical Association, 11 (1996): 870-876. 3. J. de Dios Pozo Olano,
Gastroenterology, 74 (5 Pt. 1) (1978): 829-830. 4. M.L. Clements et al.,
Antimicrobial Agents & Chemotherapy, 20 (1) (1981): 104-108. 5. R.M. Tankanow et al.,
DICP, 24 (4) (1990): 382-384. 6. S.J. Bhatia et al.,
Journal of Clinical Microbiology, 27 (1989): 2328. M.R. Gismondo et al.,
Clin Ter, 134 (1) (1990): 41.
Lawrence Review of Natural Products. (St. Louis: Facts and Comparisons, nóvember, 1991). 7. Elmer et al., sama heimild. 8. E. Hilton et al.,
Annals of Internal Medicine, 116 (1992): 353-357. 9. V.E. Tyler,
Herbs of Choice: The Therapeutic Use of Phytomedicinals. (Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1994). 10. Sama heimild. 11. V.L. Hughes og S.L. Hillier,
Obstetrics & Gynecology, 75 (2) (1990): 244. 12. Barrett og Herbert, sama heimild. 13.
Lawrence Review of Natural Products, sama heimild. 14. S.Y. Lin et al.,
Journal of Dairy Science, 72 (11) (1989): 2885-2899. 15. American Pharmaceutical Association.
Handbook of Nonprescription Drugs, 11. útg. (Washington D. C.: American Pharmaceutical Association, 1996).
© Þýðing: Hálfdan Ómar Hálfdanarson og Þuríður Þorbjarnardóttir
Frá bandaríska lyfjafræðingafélaginu