Almennt um vítamín
Vítamín eru skilgreind sem lífræn efni er líkaminn þarfnast í litlum mæli. Aðaluppsprettu vítamína er að finna í fæðunni.
Vítamín eru skilgreind sem lífræn efni er líkaminn þarfnast í litlum mæli. Þau getur þurft að fá úr umhverfinu eða fæðunni af því að vítamínin verða ekki til í líkamanum eða þá að myndun þeirra þar er ekki nægjanleg til að viðhalda heilsu manna. Aðaluppsprettu vítamína er að finna í fæðunni með einni undantekningu, D-vítamín verður til í mannslíkamanum fyrir tilstuðlan sólarljóss (útfjólublárra geisla).
Þessi skilgreining á vítamínum skilur þau frá lífsnauðsynlegum snefilefnum en snefilefni eru ólífræn næringarefni sem líkaminn verður að fá, í örlitlu magni þó.
Vítamín greinast líka frá öðrum lífsnauðsynlegum efnum sem heita amínósýrur og eru nokkurs konar byggingarefni próteina. Amínósýrur eru lífræn efni sem mannslíkaminn þarf á að halda og fær í miklu magni úr fæðu.
Vítamín eru ólík hvað varðar byggingu og virkni og eftir því er hægt að skipta þeim í tvo flokka:
- Vatnsleysanleg vítamín eru B- og C-vítamín. Þau staldra stutt við í líkamanum og því verður að neyta vítamínanna reglulega til að þau haldist þar við. Aðalhlutverk B vítamína er að vera hjálparefni fyrir ákveðin ensím, en ensím eru sérhæfð prótein sem stjórna efnahvörfum í líkamanum. Umfram magn vatnsleysanlegra vítamína skilst út úr líkamanum, t.d. með þvagi. Aðalvirkni flestra vatnsleysanlegra vítamína er að virkja ensím í orkuframleiðslu.
B vítamín taka meðal annars þátt í blóðmyndun og að viðhalda heilbrigðu taugakerfi. C vítamín virka sem andoxunarefni í líkamanum. - Fituleysanleg vítamín eru A-, E-, D-, K-vítamín. Líkaminn getur geymt þessi vítamín í mjög miklu magni og þessi eiginleiki hans gerir það að verkum að vítamínin geta leitt til alvarlegra eitrana.