Verðu húðina gegn veðrinu!

Þegar kalt er í veðri er mikilvægt að gefa húðinni aukinn gaum og gæta þess að verja hana fyrir veðri og vindum. Við fengum Ernu Maríu Eiríksdóttur, snyrtifræðing hjá snyrtistofunni, Verði þinn vilji, til að gefa lesendum góð ráð þessa köldu mánuði.

Rakaþurrkur

Rakaþurrkur lýsir sér þannig að mann fer að klæja í andlitið og stundum á höndum og fótum og jafnvel um allan líkamann. Þetta er hægt er að koma í veg fyrir með því að bregðast rétt við og vera með réttar vörur á andlit og líkama. Einnig er hægt að halda góðum raka í líkamanum með því að drekka nóg af vatni yfir daginn en miðað er við að drekka um átta glös af vatni á dag.
Gott er að bera verndandi krem á húðina. Oftast þarf að skipta um krem á veturna og nota feitari krem, en þó eru ekki allir sem þurfa þess. Gott er að bera farða eða púður á andlit til að verja húðina gegn utanaðkomandi áhrifum og hitamismun.

Þurrkublettir

Þurrkublettir í húð eru mjög algengir yfir vetrartímann, þá þurfa sumir að nota tvö mismunandi krem, serum eða húðolíu á þurru svæðin. Húðin getur virkað ótrúlega “þyrst” í kuldanum. Finnst þér þú vera að bera endalaust á þig krem og ekkert gerist? Þá er gott að nota húðolíu eða gott nærandi krem, góð næring fyrir húðina veitir vörn gegn kulda. Hafa ber í huga að kremin sem notuð eru verða að hafa vörn sem verja húðina gegn utanaðkomandi áhrifum.
Gott er að fá ráðleggjngar hjá snyrtifræðingi um húðina og hvað þú þarft að gera til að halda henni í góðu jafnvægi yfir vetrartímann.

Djúphreinsun

Gott er að djúphreinsa húðina einu sinni til tvisvar í viku (fer reyndar eftir húðgerð og þykkt húðar) til að örva blóðflæðið, hreinsa burt dauðar húðfrumur og stuðla þannig að heilbrigðri endurnýjun húðarinnar. Þetta gerir það líka að verkum að kremið sem við setjum á okkur nær lengra niður í húðina þ.e að virku efnin í kreminu komast dýpra í húðina.

Rakaþurrkur og fituþurrkur

Húðþurrkur skiptist í tvær tegundir; rakaþurrk og svo fituþurrk. Fólk undir 35 ára er yfirleitt með rakaþurrkinn en þá virkar húðin strekkt eftir sturtu t.d og þurrkurinn finnst á húðinni eins og t.d þurrkublettir. Fituþurrkur er meira undirliggjandi og finnst hann yfirleitt ekki á húðinni heldur virkar hann eins og pirringur í húðinni en sést ekki utanfrá. Eins gott og það er að bera á sig rakakrem þegar maður er rakaþurr í húðinni þá er ekki gott að bera á sig 100 prósent rakakrem þegar það er kalt og frost er úti. Því að eins og við vitum þá frýs vatn! Því er miklu betra að bera á sig krem sem eru gerð sérstaklega til að vernda húðina í kulda og gefa henni einnig þann raka og fitu sem að hún þarf. Til eru sérstök krem, veðráttukrem sem að eru verndandi fyrir húðina og er mjög gott að nota yfir vetrartímann. En það getur einnig verið gott að eiga rakamaska til að bera á sig einu sinni til þrisvar í viku á kvöldin ef húðin er mjög þurr.

Vítamín

Gott er að taka inn C, E og A – vítamín en það eru andoxandi efni og rannsóknir hafa sýnt að þau vernda húðina og geta dregið úr þurrki og húðskemmdum. Einnig er hægt að fá raka í húðina innan frá t.d með vatnsdrykkju og með því að taka inn fjölómettaðar fitusýrur, sérstaklega Omega 3. Auðvelt er að fá Omega 3 úr fiski, hörfræjaolíu, graskersfræjum, ólífuolíu og möndlum.
Kryddaður matur eins og t.d engifer og chili þurrkar húðina. Koffín og áfengi hafa einnig mjög þurrkandi áhrif á húðina.

Börnin

Blessuð börnin geta líka fengið rakaþurrk í kuldanum og þá er best af öllu að eiga þessi sérstöku veðráttukrem sem vernda húðina en gefa henni raka á sama tíma. Setjið alls ekki 100 prósent rakakrem á kinnar barnanna áður en að þau fara út að leika sér í frostinu!

Umsjón: Erna María Eiríksdóttir