Útfjólubláir geislar og sólarvörn

Almenn fræðsla

Með hækkandi sól, sumarfríum og ferðalögum er rétt að draga athygli lesenda að hættunni sem leynist í geislum sólarinnar. Viðeigandi ráðstöfun og varkárni er mikilvæg til að tryggja gott frí fyrir þig og fjölskylduna.  Fylgstu með útfjólubláum geislum.

Útfjólubláir geislar frá sólu eru taldir skaðlegir mönnum. Ósonlagið, sem er að finna í heiðhvolfi lofthjúpsins, veitir ákveðna vörn við þeim. Þykkt þess er þó breytileg. Á Veðurstofu Íslands er fylgst með útfjólublárri geislun og er svokallaður UV-stuðull gefinn út daglega. Þessi stuðull tekur mið af skýjahulunni og Veðurstofan lætur það ekki duga heldur gefur lætur einnig ráðleggingar um sólarvörn fylgja. Fyrir þá sem eru að ferðast erlendis má fylgjast með útfjólublárri geislun á heimasíðu WHO ( who.int ). 

Geislar sólarinnar eru þrenns konar og hafa mismunandi bylgjulengd. Þetta eru UVA, UVB og UVC geislar. Það eru UVA geislarnir sem gera húðina brúna en valda einnig ótímabærri öldrun. UVB geislarnir eru hættulegri og það eru þeir sem brenna húðina og geta verið krabbameinsvaldandi. UVC geislarnir eru hættulegastir en ósonlagið í lofthjúp jarðar heldur þeim í skefjum.

Tafla: UV stuðull mælir beint áhrif útfjólublárra geisla á húðina. Því stærri UV stuðull, því minni viðveru þolir húðin og verður fyrr fyrir skaða.

 Index Geislun  Sólar-ráðleggingar 
 1-2 Lítil  Sólarvörn ekki nauðsynleg.
 3-5 Miðlungs Gott að nota sólarvörn, sólhatt og sólgleraugu.
 6-7 Mikil Notið sólarvörn með háum stuðli. Gott að nota sólhatt og sólgleraugu og forðist helst sólina milli kl. 12-15.
 8-10 Mjög mikil Forðist sólina kl. 12-15. Notið sólarvörn með háum stuðli, sólhatt og sólgleraugu.
 11+ Afar mikil  Forðist sólina kl. 12-15. Notið sólarvörn með háum stuðli, föt, sólhatt og sólgleraugu.

Sólarvörn
Til að sólarvörnin komi að tilætluðum notum þarf að bera sig rétt að. Mikilvægt er að bera á sig sólarvörnina áður en farið er út í sólina. Smyrja þarf vel af kreminu á húðina til að vörnin virki. Ef borið er á of þunnt lag næst ekki sú vörn sem umbúðirnar segja til um. Efnið dofnar smátt og smátt og sólarvörnin er talsvert minni eftir eina eða tvær klukkustundir.

Þú getur varið þig gegn geislum sólarinnar með því að fylgja nokkrum einföldum ráðum:

Forðastu miðdegissólina, milli 12 og 15
Á sumrin eru geislar sólarinnar skaðlegastir eftir hádegið, milli kl. 12 og 15. Reyndu þess vegna að gera eitthvað annað en að liggja í sólinni á þessum tíma dagsins. Farðu frekar í sólbað fyrir kl. 12 eða eftir kl. 15. Hafðu líka í huga að hvítur sandur og vatn eða sjór endurkastar geislum sólarinnar svo þú verður fyrir mun meiri geislun á slíkum stöðum heldur en t.d. ef þú værir á grasflöt.

Haltu þig í skugganum
Það hljómar kannski undarlega en það þarf ekki að sitja beint undir sólinni til þess að vera brúnn. Þó þú sitjir undir tré eða í skugga sólhlífar færðu samt um helminginn af geislum sólarinnar á líkamann. Maður getur einnig tekið lit á skýjuðum sumardegi.

Vertu í léttum fatnaði
Ef þú hefur ekki möguleika á því að halda þig í skugganum þá er góð hugmynd að vera í þunnum bómullarfatnaði og jafnvel með derhúfu. Derhúfan á sérstaklega við fyrir þá sem eru með skalla eða þunnt hár. Bómullarfatnaður er góð vörn gegn geislum sólarinnar. Ef þú ert í bol úr slíku efni geturðu t.d. verið 7-11 sinnum lengur í sólinni en annars. Á þá staði sem ekki er hægt að hylja með fatnaði skaltu bera sólarvörn.

Notaðu sólarvörn
Það er enginn vafi á því að það besta sem þú getur gert til að forðast geisla sólarinnar er að forðast miðdegissólina, halda þig í skugganum eða vera í léttum fatnaði. Ef að þú þarft eða vilt gjarnan vera í sólinni samt sem áður þá er mjög mikilvægt að nota sólarvörn. Viðkvæm, ljós húð þolir næstum enga sól og sólbrennur fjótt og auðveldlega á meðan þeir sem hafa dekkri húð þola sólina betur.

Hvernig bregðast skal við sólbruna?
Sólbruni er brunasár af völdum sólarinnar. Yfirleitt er um að ræða fyrstu gráðu bruna, einstaka sinnum annarrar gráðu bruna. Við vægum sólbruna er best að nota sólaráburð (after sun) og forðast sól í 1 – 2 daga. Við alvarlegri bruna má nota hydrókortisónkrem 1% eða kvalastillandi hlaup í litlum mæli. Hvort tveggja fæst í lausasölu í Lyfju. Gott er að kæla brennda svæðið með svölu vatni (ca. 25 °C) í ½ – 1 klukkustund til að lina sviðann. Varúð skal þó höfð þegar börn brenna því þau geta ofkólnað illa.

Leitaðu læknis:

  • Ef húðin hleypur upp í blöðrum
  • Ef kornabörn eða smábörn sólbrenna
  • Ef húðin verður rauð og sárkvalin

Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðunum lyfja.is og doktor.is

Fylgist með einkennum

Leitið læknis ef þið takið eftir að brúnum húðblettum sem líkjast fæðingarblettum en geta verið tilkomnir vegna geislun sólarinnar.  Þeir hafa tilhneigingu til að myndast á þeim stöðum þar sem sólin fær að skína á húðina eins og í andliti, á handarbökum og á handleggjum. 

Hinn þekkti leikar Hugh Jackman greindist fyrst með húðkrabbamein árið 2013 og hefur þurft á nokkrum meðferðum að halda vegna frumubreytinga í húð. Jackmann hefur verið ötull talsmaður þess að hvetja fólk til að nota sólarvörn og fylgjast vel með grunsamlegum “fæðingarblettum” eða sólarblettum.

Bandaríska leikkonan Brooke Shields er flestum kunn. Færri vita að leikkonan greindist með forstigseinkenni húðkrabbameins. Brooke segir að þetta hafi verið ýtt hressilega við sér þegar kemur að sólarvörn og viðurkennir hún að hafa í gegnum árin farið óvarlega í sólinni og í raun ekki trúað því að geislar sólarinnar væru hættulegir. Þessu viðhorfi  hafi hún snarlega breytt eftir greininguna.