Tiltekt í lyfjaskápnum

Almenn fræðsla

Hvernig er best að taka til í lyfjaskápnum? Hér eru nokkur ráð frá Lyfjastofnun.

1. Takið fram öll lyfin á heimilinu og fjarlægið þau lyf sem ekki er lengur not fyrir, til dæmis:

  • Hálffullar kremtúpur og nefúða
  • Lyf sem enginn man hver á
  • Lyf sem enginn man við hverju eru gefin
  • Lyf sem eru komin fram yfir fyrningardagsetningu


2. Geymið lyfin sem eftir verða í upprunalegum umbúðum, öll á einum stað þar sem börn hvorki ná til né sjá.

3. Skilið þeim lyfjum, sem ætlunin er að henda, til eyðingar í apótek. Fjarlægið persónugreinanlegar upplýsingar af umbúðum ef þess
er óskað. Óþarfi er að skila inn pappírsumbúðum utan af lyfjum, flokkið þær með pappírsúrgangi.

Skilið þessum lyfjum í apótek til eyðingar:

  • Lyfjum sem eru komin fram yfir fyrningardagsetningu
  • Ónotuðum lyfjum
  • Lyfjum sem ekki er lengur not fyrir


Ekki henda umbúðum utan af lyfjum sem ætlað er að geyma. Á umbúðum lyfja og í fylgiseðli eru mikilvægar upplýsingar um notkun, skammtastærð og geymsluþol lyfsins. Ef lyfið er geymt í upprunalegum umbúðum eru upplýsingar um lyfið til staðar sem getur dregið úr hættu á að röng lyf séu tekin í misgripum. Einnig dregur það úr hættu á rangri notkun lyfsins.

Ekki klippa þynnur í smærri einingar því á þeim eru upplýsingar um geymsluþol lyfsins.

Hættan við að nota gömul lyf

Ef lyf sem komin eru fram yfir fyrningardagsetningu eða sem hafa verið geymd við röng skilyrði eru notuð er hætta á að:

  • lyfið virki ekki sem skyldi
  • viðkomandi upplifi nýjar eða óþekktar aukaverkanir

Ekki deila lyfjum með öðrum

Sparið ekki lyfin svo hægt sé að deila þeim með öðrum. Læknirinn sem ávísaði lyfjunum framkvæmdi ítarlegt mat til þess að ganga úr skugga um að lyfið hentaði viðkomandi. Það er ekki öruggt að lyf sem hentar ákveðnum einstaklingi henti öðrum. Lyf geta dregið úr áhrifum annarra lyfja sem tekin eru samhliða og í versta falli skaðað þann sem lyfjunum er deilt með.

Skoðaðu lyfjaskápa sem fást í apótekum og netverslun Lyfju hér.

Heimild: Lyfjastofnun