Slysavarnir barna
Til hamingju með barnið þitt. Allir foreldrar vilja leggja sig fram við að tryggja öryggi barnsins síns. Það getur stundum verið erfitt að vita hvað er rétt og eftir hverju eigi að fara.
https://www.youtube.com/watch?v=zxIbniPYmGI
Oft verða nýbakaðir foreldrar fyrir áhrifum frá afanum og ömmunni, alls kyns foreldrahópum sem þeir eru hluti af að ógleymdum samfélagsmiðlum. Þetta skapar oft óöryggi þar sem upplýsingar geta verið úreltar, byggt á skoðunum eða að verið sé að auglýsa vörur sem ekki eru alltaf öruggar.
Sem sérfræðingur í slysavörnum barna með yfir 30 ára reynslu af foreldrafræðslu ætla ég (Herdís Storgaard) að fara yfir nokkur mikilvæg öryggisatriði sem tengjast öryggi í svefnumhverfi ungbarnsins, atriði sem huga þarf að strax frá fæðingu. Allar upplýsingar sem koma fram hér byggja á nýjustu rannsóknum sem gerðar hafa verið af barnalæknum í Bandaríkjunum en þeir eru leiðandi í heiminum í öryggi í svefnumhverfi ungra barna.
Öryggi í svefnumhverfinu
Þegar börn eru lögð til svefns hvort heldur er að nóttu eða degi til þurfa þau að sofa í öruggum búnaði. Vöggur og ungbarnarúm ásamt ferðarúmum eru framleidd með það í huga að barnið sofi eftirlitslaust í nokkra klukkutíma í senn og því eru gerðar sérstaklega strangar öryggiskröfur til þeirra að engar hættur séu til staðar fyrir barnið.
Rúm fullorðinna er ekki öruggur svefnstaður fyrir ungabörn. Ástæður eru margvíslegar. Algengt er að foreldrar haldi að best og öruggast sé fyrir ungbarnið að sofa uppi í rúmi hjá þeim og æ fleiri foreldrar kjósa ekki að nota vöggu né ungbarnarúm fyrstu mánuðina fyrir barnið.
Hættur í fullorðinsrúmum eru dýnur, sængur, koddar og hættuleg bil sem myndast geta við dýnuendann þar sem hún mætir vegg eða rúmgafli. Dýnur í rúmum fullorðinna þurfa ekki að standast öndunarprófun. Þær eru oft á tíðum stórhættulegar fyrir börn þar sem þær eru of mjúkar og ef barnið rúllar sér yfir á magann getur það auðveldlega kafnað. Koddar og sængur fullorðinna eru mjög hættulegar fyrir börn og er auðvelt fyrir þau að kafna ef þau lenda með andlitið á þeim þar sem mikil hætta er á enduröndun, sem leitt getur til köfnunar. Ef ungbarn verður undir fullorðinssæng eru litlar líkur á að barnið geti sparkað sænginni af sér þar sem hún er þung og stór og alltof þykk fyrir svona lítið barn, sem getur valdið köfnun og ofhitnun, sem leitt getur til dauða.
Foreldrar nota oft burðarrúm eða hreiður til að hafa barnið öruggt á milli sín í rúminu sem ekki er öruggt fyrir barnið að sofa í eftirlitslaust. Burðarrúm er ekki öruggur svefnstaður nema undir fullu eftirliti fullorðinna allan tímann. Hreiður eru hugsuð til þess að auka svefn ungbarna í rúmi fullorðinna. Um búnað er að ræðav sem ekki uppfyllir ströngustu kröfur um öryggi en það er sökum þess að ekki er til staðall yfir þennan búnað og því ekki öruggt að nota hann.
Vagga/ungbarnarúm
Mikilvæg er að ungbörn sofi í vöggu eða ungbarnarúmi sem uppfyllir gildandi staðal EN1130. Undir þennan staðal falla allar vöggur sem eru undir 90 cm að lengd. Þær eru framleiddar til notkunar fyrstu mánuðina eða þar til barnið getur reist sig upp á hnén. Á markaði eru þrenns lags útgáfur af vöggum. Frístandandi vöggur, og vöggur sem eru framleiddar til að nota upp við rúm fullorðinna (hliðarvöggur) og vöggur sem gerðar eru fyrir hvoru tveggja. Í þessum búnaði er öruggt að láta börn sofa eftirlitslaus.
Ungbarnarúm eru með stillanlegum botni. Börn geta notað ungbarnarúmið frá fæðingu. Það er notað fyrstu mánuðina með botninn í efri stellingu eða þangað til barnið getur byrjað að reisa sig upp á hnén. Þá þarf að færa botninn niður í lægstu stellingu. Til eru tvær útgáfur af ungbarnarúmum, með föstum hliðum en þá er ekki hægt að taka aðra hliðina af þegar barnið reynir að klífa yfir hana og þá verður barnið að fara yfir í barnarúm. Hin útgáfan af ungbarnarúmum er með hlið sem má fjarlægja þegar barnið er farið að reyna að klifra yfir hana og getur barnið því notað ungbarnarúmið lengur.
Í vöggum, ungbarnarúmum og ferðarúmum skal einungs nota viðurkenndar dýnur sem uppfylla staðal EN16890. Mikilvægt er að benda á að dýna sem notuð er í vöggu eða ungbarnarúm þarf að vera frá framleiðanda rúmsins/vöggunnar þar sem dýnuna þarf að prófa í viðeigandi vöggu eða ungbarnarúmi til að búnaðurinn teljist öruggur.
Lesið ávallt leiðbeiningar framleiðanda um rétta staðsetningu og notkun rúmsins.
Heimagerður búnaður
Talsvert er um að foreldar séu að útbúa eigin búnað eða nota búnað sem smíðaður var fyrir tugum ára og má þar sérstaklega nefna vöggur og ungbarnarúm. Þessi búnaður uppfyllir ekki kröfur um öryggi barna og því mikilvægt að nota hann ekki.
Notaður búnaður
Í notkun er mikið af gömlum búnaði, sumt er í góðu lagi að nota en annað ekki. Ef vagga eða ungbarnarúm var framleitt fyrir tuttugu árum síðan stenst það ekki núgildandi staðal og því ekki öruggt að nota það. Ef rúmið eða vaggan eru yngri en tuttugu ára er í lagi að nota þau svo lengi sem allir íhlutir (festingar) eru til staðar og að hægt sé að panta nýja frá framleiðanda rúmsins. Mikilvægt er að mæla innanmál rúmsins áður en dýnan er pöntuð þar sem stærð nýrri rúma gæti hafa breyst en dýna verður að smellpassa í rúmið. ATH: Aldrei panta dýnu í ungbarnarúm frá dýnuframleiðendum, þær uppfylla ekki kröfur um öryggi.
Rúmfatnaður
Lakið. Hefðbundið lak hefur ekki áhrif á önundareiginleika dýnunnar. Mikilvægt er að nota lak í réttri stærð sem framleitt er fyrir tiltekna stærð dýnunnar. Ef notað er of stórt lak sem ekki er samkvæmt uppgefnu máli dýnunnar er hætta á að barnið geti flækst í því og kafnað eða hengt sig. Gæta þarf sérstaklega að heimagerðum rúmfatnaði þar sem ekki má loka sængurverum með tölum né böndum. Saumar þurfa að vera öruggir en mikil hætta getur skapast ef saumur raknar og tvinni vefst um fingur og tær sem getur endað með alvarlegri blóðrásartruflunum.
Dýnuhlíf
Ekki er nauðsynlegt að nota dýnuhlíf þar sem bleyjur hafa gott rakadrægi. Betra er fyrir foreldra að nota góðar næturbleyjur en að nota dýnuhlífar fyrsta árið. Umhverfisvænar bleyjur hafa einnig mun betri rakadrægi en áður. Til eru sérstök undirlök sem hylja alla dýnuna. Áður en foreldrar kaupa slíka dýnuhlíf þurfa þeir að ganga úr skugga um að hún hafi verið öndunarprófuð fyrir þá tegund dýnu sem þeir ætla að nota (að framleiðandi dýnunnar hafi prófað hana á sinni dýnu), þessar upplýsingar á að vera hægt að finna á heimasíðu framleiðandans. Ekki er óhætt að nota dýnuhlíf sem ekki hefur verið prófuð fyrir tiltekna dýnu. Ef einhver vafi leikur á þessu er mikilvægt að sleppa því að nota hana því hætta er á að öndunareiginleikar dýnunnar virki ekki en dýnuhlíf getur haft neikvæð áhrif á hana.
Pissulök
Á ekki að nota fyrsta árið. Pissulak er framleitt fyrir börn eldri en eins árs þar sem mikil köfnunarhætta getur stafað af þeim. Til eru tvær gerðir af pissulökum, einnota pappírslök og hefðbundin taulök. Báðar þessar tegundir eru þaktar plasti öðrum megin. Ef ungbarn veltir sér yfir á magann og lendir með andlitið ofan á pissulaki getur það kafnað.
Koddi eða ekki koddi
Hættulegt er að nota kodda fyrsta árið en mikil köfnunarhætta fylgir notkun hans. Nokkrar tegundir eru til af ungbarnakoddum sem auglýstir eru sem öruggir og er höfðað til foreldra um mikilvægi notkunar þeirra til að koma í veg fyrir flatan hnakka. Rannsóknir sýna að betra er fyrir barnið að nota ekki kodda til að þroska betur styrk í hálsi og best er fyrir ungbarnið að liggja flatt til að hryggur þess og mjaðmir þroskist eðlilega.
Undirbreiðsla undir höfði
Algengt er að taubleyjur eða stykki séu sett undir höfuð barna í vöggunni eða ungbarnarúminu til að koma í veg fyrir að lakið óhreinkist þegar barnið gubbar eða slefar. Þetta er ekki öruggt þar sem slys hafa orðið þegar stykkið böðlast að hálsinum þrátt fyrir að því hafi verið komið fyrir með því að troða köntum þess niður á milli rimla og dýnu. Hætta er á að barnið geti hengt sig í stykkinu.
Sængin
Það er fullkomlega öruggt að nota ungbarnasæng sem stenst gildandi staðal EN16779. Ungbarnasængur sem standast staðalinn eru framleiddar fyrir mismunandi hitastig í herbergjum. Mikilvægt er að velja sæng sem hentar fyrir hitastigið í herberginu þar sem barnið sefur. Mælt er með að það sé á bilinu 18 – 20 gráður. Í leiðbeiningum kemur einnig fram í hvað skuli klæða barnið undir sænginni.
Afar mikilvægt er að sængin sé af réttri stærð fyrir barnið (ekki of stór). Einnig er hægt að nota værðarpoka í stað ungbarnasængur. Aldrei má láta barn sofa í værðarpoka og nota einnig ungbarnasæng en það getur valdið ofhitnun sem leitt getur til dauða. Mikilvæg er að fylgja leiðbeiningum framleiðanda um rétt val á værðarpoka. Að hann sé öruggur og uppfylli gildandi staðal EN16781. Mikilvægt er að velja værðarpoka sem hentar fyrir hitastigið í herberginu þar sem barnið sefur. Mælt er með að það sé á bilinu 18 – 20 gráður. Í leiðbeiningum kemur einnig fram í hvað skuli klæða barnið í værðarpokanum til að koma í veg fyrir ofhitnun. Afar mikilvægt er að velja ávallt værðarpoka af réttri stærð fyrir barnið samkvæmt leiðbeiningum framleiðanda. Notkun á of stórum værðarpokum getur haft í för með sér að barnið renni niður í hann og geti kafnað.
Ungbarnasængur, værðarpokar, teppi fyrir ungbörn og fleira með þyngingu
Þessi búnaður er auglýstur sem róandi fyrir barnið. Mikilvægt er að nota ekki þennan búnað fyrir börn yngri en þriggja ára því hann getur haft áhrif á öndunargetu ungra barna og haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.
Stuðkanturinn Er óþarfa búnaður sem hefur engan tilgang. Því er haldið fram að hann komi í veg fyrir höfuðhögg en rannsóknir sýna að það er ekki rétt. Ef foreldrar ætla að nota þennan búnað er mikilvægt að þeir noti einungis stuðkant sem stenst EN16780 og fylgi ávallt leiðbeiningum framleiðanda um rétta notkun.
Aðrir þættir sem tryggja öryggi barnsins í svefnumhverfi þess.
- Barnið á ekki að sofa með leikföng hjá sér.
- Munið að fjarlægja snuðbandið áður en barnið er lagt til svefns.
- Fjarlægið skartgripi, hárskraut, hárbönd áður en barnið er lagt til svefns.
- Hengið aldrei neitt á vögguna eða ungbarnarúmið en það getur valdið slysi.
- Gætið vel að staðsetningu vöggunnar/ungbarnarúmsins, að það standi ekki upp við miðstöðvarofn – getur valdið brunaslysi.
- Hengið ekki ljósaseríu á eða við vöggu/ungbarnarúms slíkt getur valdið hengingu.
- Himnasæng getur reynst hættuleg ef hún er hengd yfir vögguna/ungbarnarúmið – því er mikilvægt að nota hana ekki.
- Ef órói, ætlaður fyrir vöggu/ungbarnarúm, er notaður – fylgið ávallt leiðbeiningum framleiðanda um rétta notkun og hvenær notkun skuli hætt.
ATHUGIÐ. Aldrei má hækka undir höfði barns yngra en eins árs þrátt fyrir að búnaðurinn bjóði upp á það. Þetta eru ströng fyrirmæli barnalækna til að koma í veg fyrir slys. Þetta á við þrátt fyrir að magainnihald sé að koma upp úr barninu eða þegar það er mjög kvefað. Barnið er ekki í hættu að kafna.
Barnavagninn
Er búnaður til að flytja börn á milli staða á öruggan hátt undir stöðugu eftirliti. Barnavagnar og kerrur falla því ekki undir öruggan svefnstað þar sem dýnurnar í þeim og kerrum uppfylla ekki kröfur um öndunarprófun og þess vegna er þessi búnaður ekki öruggur svefnstaður án eftirlits. Það hefur lengi tíðkast á Íslandi að börn séu sett út í vagn gagngert til að sofa. Þetta var gott heilsuráð fyrir 150 árum síðan en á ekki við dag. Nýjar rannsóknir sýna að börn sofa dýpri svefni utandyra (djúpum djúpsvefni) en slíkt getur verið mjög hættulegt fyrir ungbörn og leitt til vöggudauða. Það er hins vegar alveg öruggt fyrir barnið að sofa í gönguferðum í vagninum en þá undir stöðugu eftirliti foreldra. Aldrei má breiða fyrir op barnavagna með teppum, sérstökum stykkjum. Regnplöst sem hylja allan vagninn og opið líka eru hættuleg og ættu aldrei að vera notuð. Einu öruggu regnplöstin eru þau sem hylja vagninn sjálfan en ekki opið. Munið að barnið andar örar en við og jafnvel flugnanet getur haft áhrif á súrefnisgæðin inni í vagninum, svo ekki sé minnst á hættulega hátt hitastig sem getur auðveldlega myndast þegar opið er hulið þrátt fyrir að kalt sé í veðri.
Munið að nota ávallt beisli í barnavagninn.Ekki eru a llir barnavagnar með festingu fyrir beisli ekki má mixa eða reyna að festa beislið einhvern veginn. Í þessa vagna er ekki hægt að nota beisli og því getur verið varasamt að fara út með barnið í göngutúr í mikilli hálku eða roki.
Barnapían – hlustunartæki (audio monitor)
Er hlustunarbúnaður sem gerir foreldri kleift að hlusta eftir gráti eða hreyfingum barns. Mikilvægt er að fylgja ávallt leiðbeiningum framleiðanda við notkun hans. Þessi tegund af búnaði sem framleiddur er til að hlusta eftir barninu gefur frá sér bylgjur sem geta haft áhrif á heilsu barnsins ef hann er ekki notaður rétt. Þessi tegund af búnaði þarf alltaf að vera staðsettur 1,5 – 2 metrum frá barninu. Ef hann er notaður þannig að honum er stungið í samband er mikilvægt að tryggja að snúran liggi ekki við barnarúmið/vögguna heldur langt frá þannig að engin hætta sé á að barnið geti nálgast hana.
Búnaðinn má aldrei staðsetja inni í barnavagninum eða í ungbarnarúminu eða vöggunni. Athugið að ekki má nota allan búnað utan dyra en það er tekið fram í leiðbeiningum framleiðanda.
Að lokum vil ég minna á að öllum verðandi foreldrum er boðið upp á ítarlegt námskeið hjá mér í slysavörnum ungbarna hjá Miðstöð slysavarna barna. Hægt að skrá sig hér. https://www.msb.is/namskeid_type/vertu-skrefi-a-undan/ Ef þú hefur ekki sótt námskeiðið er það ekki of seint en æskilegt er að sækja það eigi síðar en innan fjögurra vikna frá fæðingu til að það gagnist þér. Námskeiðið er frítt.
Ef þig vantar ráðgjöf um slysavarnir barna getur þú sent tölvupóst slysahusid@simnet.is
Kveðja, Herdís Storgaard
Mynd: Alex Pasarelu frá Unsplash