Öndum með nefinu | Mikilvægi neföndunar fyrir tannheilsu og svefn
Neföndun er ummyndandi. Hún bætir svefn, einbeitingu og frammistöðu í íþróttum, hjálpar til við að halda heilum og heilbrigðum tönnum og tannholdi, eykur líkur á að andlitið vaxi og þroskist rétt og stuðlar að beinum tönnum.
Öndun okkar á það til að fara fram hjá okkur því hún er ósjálfráð. Hún er þó mikilvægari en flestir átta sig á, því að langvarandi röng öndun getur haft margvíslegar slæmar afleiðingar.
Þó að aðaltilgangur nefsins sé að hreinsa, hlýja og rakametta loftið sem við öndum að okkur, þá er nefið oft vannýtt til öndunar. Mörg börn og fullorðnir anda í gegnum munninn og getur það bæði verið vegna vana eða vegna hindrana í nefinu. Ef hindrun er í nefinu þarf að meðhöndla það eins fljótt og kostur er.
Neföndun sinnir a.m.k. 30 hlutverkum fyrir hönd líkamans. Ásamt því að gera okkur kleift að finna lykt er nefið leið náttúrunnar til að undirbúa loftið áður en það fer til lungnanna. Þar sem nasirnar eru mun minni en munnurinn verður meira viðnámi í loftflæði um nefið, sem gerir það að verkum að súrefnisupptaka verður 10-20 prósentum meiri. Neföndun eykur ekki aðeins súrefnismagnið í blóðinu heldur einnig magn súrefnis sem ferðast að lokum til líffæra og vefja líkamans.
Við munnöndun þornum við í munninum, ekki síst á nóttunni, því þá er munnvatnsframleiðsla töluvert minni en á daginn. Munnþurrkur veikir varnir líkamans, því munnvatnið smyr og ver munnholið, stuðlar að réttu sýrustigi og inniheldur efnasambönd sem verndar bæði tennur og umhverfi þeirra. Í munnvatninu eru líka efnahvatar sem byrja meltingu fæðunnar.
Munnöndun eykur því hættuna á tannholdsbólgum, tannskemmdum og andremmu. Litur og útfellingar verða meira áberandi og slit tanna eykst.
Bólgið tannhold er viðkvæmara fyrir bakteríum og veirum, sem eiga þá greiðari aðgang inn í blóðrásina og þaðan um líkamann. Bólgið tannhold getur þannig haft skaðleg áhrif annarstaðar í líkamanum og aukið hættuna á sýkingum og sjúkdómum almennt. Heilbrigt munnhol stuðlar því að betri almennri heilsu.
Munnöndun veldur ekki bara skaðlegum þurrki og bólgum heldur getur hún einnig haft áhrif á vöxt og þroska barna, og jafnvel stuðlað að því að tannréttingar gangi til baka.
Eftir nótt þar sem munnöndun hefur verið mikil getum við vaknað úrvinda, sem getur dregið úr einbeitingu og valdið pirringi. Sé þetta ástand viðvarandi hjá börnum og ungmennum getur það aukið líkur á greiningu á ADD eða ADHD.
Við neföndun á tungan að hvíla uppvið efri góm, með broddinn rétt fyrir aftan efri góms framtennur. Við munnöndun liggur tungan hins vegar niðri og gegnir þá ekki því hlutverki sínu að örva og viðhalda vexti efri kjálka. Rétt staða tungu þjálfar líka vöðvana í tungu og hálsi, en þeir styðja við og halda uppi öndunarveginum.
Munnöndun er ekki skaðleg í hófi, en óhófleg munnöndun getur hindrað eðlilegan vöxt neðra andlits hjá börnum. Kjálkarnir verða þá minni og afturstæðari og við byrjum lífið með þrengri öndunarveg.
Þröngum öndunarvegi og munnöndun fylgja svo oft svefnvandamál og aukast þá líkur á hrotum og kæfisvefni, sem hefur margvísleg skaðleg áhrif á heilsu okkar.
Um það bil 40% einstaklinga um miðjan aldur hrjóta og hlutfallið fer hækkandi með auknum aldri. Hrota er hljóð frá mjúku vefjunum sem víbra við öndun. Í svefni minnkar vöðvaspenna í hálsi og koki, þar með aukast líkur á að öndunarvegurinn falli saman eða þrengist verulega. Líkurnar aukast síðan enn meira í baklegu.
Hrotur versna með auknum aldri, aukinni þyngd, áfengisneyslu, reykingum og stíflum í nefi. Karlar eru í meiri áhættu en konur.
Hrotur geta haft alvarlegar afleiðingar og þróast oftast yfir í kæfisvefn með árunum. Þær eru þó ekki bara slæmar fyrir þau sem hrjóta heldur skerða þau einnig svefngæði þeirra sem truflast af hávaðanum frá þeim.
Það er mikilvægt að sinna forvörnum og grípa til viðeigandi aðgerða ef við hrjótum.
Á Íslandi í dag eru um 30-50 þúsund einstaklingar með kæfisvefn en aðeins 10 þúsund eru greindir. Það er mikilvægt að vera meðvitaður um svefn og heilsu. Því mælum við eindregið með svefngreiningu til að útiloka kæfisvefn og ef grunur er um hrotur, gnístur eða aðrar svefnháðar öndunartruflanir.
En hver er meðferðin og hvað getum við gert í forvarnarskyni til að hjálpa okkur að tileinka okkur neföndun? Hér eru nokkur góð ráð:
- Öndum með nefinu á daginn
Öndun þín yfir daginn hefur áhrif á öndun þína um nóttina og gæði svefns.
- Verum meðvituð um öndunarhraða
Gerum æfingar sem miða að því að hægja á öndun og lengja hvern andardrátt, einkum „pásuna“ og fráöndun.
- Tryggjum neföndun í svefni
Með neföndun minnkar magn innöndunarlofts og öndunin verður hægari, en hvort tveggja dregur úr hættu á að öndunarvegurinn falli saman.
Einfaldasta hjálpartækið til að tryggja og þjálfa neföndun í svefni er munnplástur . Til eru ýmsar gerðir af munnplástrum með gati sem eru sérstaklega hannaðir sem næturplástrar. Plásturinn lokar vörunum og styður þannig við neðri kjálka og minnkar magnið af lofti sem ferðast um öndunarveginn.
Sérstakir plástrar eru til fyrir börn. Þeir eru með stóru gati og kallast Myotape.
Plástrarnir eru einungis hugsaðir fyrir þá sem geta andað með nefinu. Þeir geta gagnast vel til að sporna við hrotum hjá einstaklingum sem hrjóta með munninum en eru að öðru leyti heilbrigðir, en ekki er mælt með að nota munnplástur eftir áfengisnotkun eða inntöku annarra sljóvgandi efna eða lyfja.
- Bætum líkamsstöðuna
Afleiðingar rangrar líkamsstöðu eru til að mynda erfiðleikar við öndun, verkir í öxlum, baki og hálsi, kjálkakvillar, hár blóðþrýstingur, höfuðverkur og hryggskekkja. - Reynum að anda með nefinu samhliða hóflegri áreynslu
Æfum neföndun með hóflega mikilli áreynslu sem krefst þess ekki að við öndum með munninum. - Höldum kjörþyngd
Með aukinni þyngd geta tungurótin og hálsinn stækkað og þrengt að öndunarveginum. - Tyggjum matinn
Tyggjum eitthvað hart alla daga og þjálfum þannig viðkomandi vöðva til að viðhalda beinunum og stífleika vöðvanna. - Bætum hvíldarstöðu tungu
Rétt hvíldarstaða tungu er upp við efri gómhvelfingu. - Styrkjum vöðvana í öndunarveginum.
Stífleiki og virkni vöðva í efri öndunarvegi hjálpa til við að halda öndunarveginum opnum. Stífleikinn og virknin minnka með auknum aldri og einnig við notkun áfengis og annarra vöðvaslakandi efna og lyfja. Með hækkandi aldri aukast mjög líkurnar á að við öndum með munninum í svefni. Til að vinna á móti þessu má gera styrktaræfingar fyrir þessa vöðva. Nýjasta hjálpartækið á Brosinu er svo lasermeðferð (Nightlase) sem vinnur á móti slappleika mjúkvefs í öndunarveginum og styrkir hann. - Næturgómar
Ef ekkert af framangreindu skilar árangri getur reynst vel að nota sérhannaða næturgóma til að halda öndunarveginum opnum meðan við sofum. Næturgómar styðja við neðri kjálka og koma í veg fyrir að hann falli aftur. Þeir geta því hjálpað þeim sem hrjóta vegna munnöndunar og þeim sem eru með vægan kæfisvefn.
Verum meðvituð um mikilvægi réttrar öndunar og nýtum okkur þær einföldu forvarnir sem við vitum að geta komið í veg fyrir eða lágmarkað skaðann sem röng öndun geta valdið okkur. Við höfum engu að tapa með réttri öndun en ávinningurinn getur verið ómældur.
TUNGAN UPP,
VARIR LOKAÐAR,
HEILBRIGÐ ÖNDUN
MEÐ NEFINU
Fræðslumyndband | Öndum með nefinu