Lyfjaskilakassar í apótekum Lyfju
Örugg eyðing lyfja eru eitt mikilvægasta umhverfisverkefni Lyfju. Lyf geta valdið skaða á umhverfinu og mega aldrei fara í rusl, vask eða klósett. Því miður mælast reglulega efni sem eru talin vera ógn við lífríki og vatnaumhverfi í sýnum Umhverfisstofnunar. Lyfja hvetur viðskiptavini til þess að skila gömlum lyfjum til eyðingar í apótek Lyfju.
Fyrsti lyfjaskilakassinn í apóteki Lyfju var tekinn í notkun á árinu 2020 en með framstillingu hans í verslunum Lyfju er vakin athygli á þessum mikilvæga þætti umhverfisverndar.
Öllum lyfjum sem afhent eru til eyðingar í apótekum Lyfju er komið í örugga eyðingu hjá fyrirtækjum sem hafa leyfi frá Umhverfisstofnun til að eyða slíkum úrgangi. Flutningskeðjan frá apótekum Lyfju til eyðingarfyrirtækis er jafnframt lokuð þannig að lyfin komast ekki í hendur óviðkomandi á leiðinni. Árið 2022 sendu apótek Lyfju 10.919 kg. af lyfjum í eyðingu og 46 kg. af sprautunálum.
Lyfjaskil í apótekum Lyfju
Lyf sem ekki er lengur þörf fyrir og umbúðir sem hafa komist í snertingu við lyfin skal skila í glærum poka í apótek. Afhendið starfsfólki apóteksins pokann og það sér um að koma lyfjunum í örugga eyðingu.Ytri umbúðir lyfjanna má fjarlægja og flokka eins og annan úrgang. Sem dæmi fylgja oft plast- og pappírsefni lyfjunum sem hægt er skila í endurvinnslutunnur við heimili og á grenndar- og endurvinnslustöðvar. Sprautunálum skal skilað í apótek í lokuðum ílátum.
Hvað má setja í lyfjaskilapokann?
- Lyf sem ekki er lengur þörf fyrir
- Umbúðir sem hafa komist í snertingu við lyfin því í þeim geta leynst lyfjaleifar
Ytri umbúðir má flokka eins og annan úrgang. Sprautunálum skal skilað í lokuðum ílátum til apóteka Lyfju.
Lyf geta valdið skaða á umhverfinu og mega því aldrei fara í rusl, vask eða klósett. Pokanum er ætlað að vera áminning og hvatning til almennings um að taka til í lyfjahirslum heimilisins og skila þeim til öruggrar eyðingar í apótek.
Af hverju er pokinn gegnsær?
Pokinn er gegnsær til þess að tryggja öryggi starfsfólks apóteka sem tekur við pokanum. Í honum mega ekki vera sprautunálar, þeim skal skilað í lokuðum ílátum til apóteka. Önnur ástæða þess að pokinn er gegnsær er að koma í veg fyrir að önnur efni en lyf og innri umbúðir þeirra fylgi með í lyfjaskilapokanum.
Hvernig á að skila lyfjum til eyðingar í apótek?
- Fjarlægið persónugreinanlegar upplýsingar af umbúðum ef vilji er fyrir því.
- Setjið lyfin í poka
- Skilið pokanum í næsta apótek
Ekki er þörf á að skila pappírsumbúðum utan af lyfjum, þær á frekar að flokka með öðrum pappírsúrgangi.
Sprautum og sprautunálum skal skila í apótek í lokuðum ílátum til að koma í veg fyrir að starfsmenn skaði sig á oddhvössum hlutum. Hægt er að fá sérstök nálabox í apótekum.
Öllum íslenskum apótekum ber skylda til að taka á móti lyfjum frá einstaklingum til eyðingar. Í reglugerð 91/2001 stendur orðrétt í 23. grein „Lyfjabúðir skulu taka við lyfjum frá sjúklingum án endurgjalds og koma til eyðingar, enda sé um að ræða lyf sem afgreidd hafa verið úr lyfjabúð.“
Hvað gera apótekin við lyfin sem skilað er til eyðingar?
Viðskiptavinir apóteka kvarta stundum yfir því að þeir fái ekki endurgreitt fyrir lyf sem þeir þurfa ekki að nota og skila í apótek. Apótekum er ekki heimilt að selja öðrum þau lyf sem skilað er inn jafnvel þó að um óáteknar lyfjapakkningar sé að ræða og ekki sé komið fram yfir fyrningartíma lyfjanna. Apótekum ber að tryggja að þau lyf sem viðskiptavinir fá afgreidd hafi verið meðhöndluð og geymd á réttan hátt þannig að gæði þeirra séu tryggð. Ekki er hægt að tryggja gæðin ef lyfið hefur farið út úr apótekinu með viðskiptavini, þ.e. út fyrir ábyrgðarsvæði apóteksins.
Þegar apótek hafa tekið við lyfjum til eyðingar er þeim komið í örugga eyðingu hjá fyrirtækjum sem hafa leyfi Umhverfisstofnunar til að eyða slíkum úrgangi. Flutningskeðja frá apóteki til eyðingarfyrirtækis er lokuð þannig að lyfin komast ekki í hendur óviðkomandi á leiðinni.
Lyf geta skaðað umhverfið
Lyf sem hent er í rusl, vask eða klósett geta borist út í náttúruna. Reyndar geta lyf sem tekin eru inn einnig hafnað í náttúrunni þar sem líkaminn skilur hluta af þeim lyfjum sem neytt er út með þvagi eða saur.
Þó að frárennslið sé síað í hreinsunarskini þá eru yfirleitt bara síuð burt föst efni, en lyfin eru að öllu jöfnu uppleyst. Þannig berast lyfin með frárennslinu út í náttúruna. Sum lyf eru lengi að brotna niður þannig að þau geta verið nokkurn tíma í náttúrunni.
Lyf sem berast út í náttúruna geta skaðað umhverfið. Sem dæmi má nefna að sýklalyf hafa áhrif á umhverfið á þann hátt að bakteríur verða ónæmar fyrir lyfjunum. Það getur síðan leitt til þess að erfitt verður að ráða við sýkingar því lyfin virka þá ekki lengur á bakteríurnar. Þá er líka þekkt að hormónar og efni frá lyfjum sem orsaka hormónabreytingar, t.d. estrogen í getnaðarvarnartöflum, getur leitt til þess að karlkyns fiskar og froskar verði tvíkynja sem dregur úr hæfileika þeirra til æxlunar.
Hvað er hægt að gera til að draga úr því að lyf berist út í náttúruna?
Apótekum er skilt samkvæmt lögum að taka við lyfjum frá almenningi til eyðingar eins og fram hefur komið. Þetta ákvæði er sett í löggjöfina til að koma í veg fyrir að lyfjum sé hent í rusl, vask eða klósett. Á sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum er mikilvægt að skýrar reglur séu um hvernig ganga skal frá ónotuðum lyfjum þannig að þeim sé eytt á öruggan hátt.
Heimild: lyfajstofnun