Hvað er melatónín?
Svefnleysi getur verið ýmiss konar. Fólk getur átt í erfiðleikum með að sofna, haldast sofandi eða að svefngæði séu léleg eða óhagstæð. Öllu þessu fylgir oftast mikil dagþreyta. Við förum í gegnum nokkur svefnstig um nóttina og virðast þau öll mjög mikilvæg við að halda góðri heilsu.
Guðrún Kjartansdóttir lyfjafræðingur fjallar um að margt bendir til þess að fólk sem á erfitt með svefn framleiði ekki nóg af melatóníni og það eru vísbendingar um að aldraðir sem þjást af svefnleysi hafi minna melatónín í blóðinu en þeir sem yngri eru, sem getur útskýrt af hverju eldra fólk á erfiðara með að sofa eða vaknar fyrr en áður.
Eitt efni í líkama okkar kemur mikið við sögu í sambandi við svefninn og það er efnið melatónín. Um er að ræða hormón sem er framleitt í heilaköngli, sem er lítið eins cm svæði í heilanum. Það er stundum kallað svefnhormón eða dægursveifluhormón þar sem það gegnir svo mikilvægu hlutverki í sambandi við stjórnun á dægursveiflum okkar og svefn/vöku hringrásinni.
Meðalsvefn/vökuhringrás hjá fólki er um átta tíma svefn og sextán tíma vaka og þessu er að miklu leyti stjórnað af sveiflum í magni af melatóníni. Melatónínlosun í líkamanum eykst í myrkri og toppar milli ellefu á kvöldin og þrjú að nóttu. Styrkur þess fellur rétt fyrir dögun og er varla mælanlegur í líkmanum yfir daginn. Tímabilin sem líkaminn framleiðir melatónín eru styttri á sumrin með lengri dögum og lengri á veturna í skammdeginu.
Margt bendir til þess að fólk sem á erfitt með svefn framleiði ekki nóg af melatóníni og það eru vísbendingar um að aldraðir sem þjást af svefnleysi hafi minna melatónín í blóðinu en þeir sem yngri eru, sem getur útskýrt af hverju eldra fólk á erfiðara með að sofa eða vaknar fyrr en áður.
Melatónín er bæði til sem nokkur lyfseðilsskyld lyf hér á landi og kom einnig nýlega sem fæðubótarefni (sem eru án sömu gæðastaðla og lyfin) á markað. Í sumum löndum er melatónín einungis fáanlegt gegn lyfseðli en í öðrum eins og hér á landi, er einnig hægt að fá það án lyfseðils (sem fæðubótarefni, ekki skráð lyf). Melatónín í lyfjum og fæðubótarefnum líkir eftir okkar náttúrulega hormóni. Melatónín til inntöku virðist ekki bæla framleiðslu á okkar náttúrulega melatóníni.
• Melatónín er notað við ýmsum tegundum svefnleysis og er yfirleitt byrjað á 0.5-1 mg (½ til 1 tafla af 1 mg) 30 mínútum fyrir svefn.