Hvað er kæfisvefn?

Almenn fræðsla Svefn

Hvaða áhrif hefur kæfisvefn á heilsu og líðan? Kæfisvefn getur haft töluverð áhrif daglegt líf. Einkenni kæfisvefns geta komið fram bæði á meðan svefni stendur og einnig í vöku. 

Helstu einkenni kæfisvefns í svefni eru háværar hrotur, tíð öndunarhlé, uppvaknanir, nætursviti og almennt óvær svefn. Helstu einkenni kæfisvefns að degi til eru dagsyfja, einbeitingarskotur, syfja við akstur, þörf á því að leggja sig á daginn og minnistruflanir.

Hvað er kæfisvefn?

Góður nætursvefn er nauðsynlegur fyrir heilsu og líðan, enda er svefn mikilvæg grunnstoð heilsu líkt og hreyfing og næring. Kæfisvefn er sjúkdómur sem einkennist af tíðum öndunartruflunum og/eða öndunarstoppum í svefni. Þessar öndunartruflanir verða til vegna þrengsla eða lokunar í efri loftvegi, sem leiðir til þess að einstaklingar hætta að anda endurtekið yfir nóttina. Öndunarstopp geta verið frá tíu sekúndum og allt að tveim mínútum, og þegar öndunarhlé eru fleiri en 15 á klukkustund er mikilvægt að meðhöndla sjúkdóminn. Þeir sem erum með 30 öndunarhlé eða fleiri á klukkustund eru með alvarlegan kæfisvefn en dæmi eru um að einstaklingar séu með yfir 100 öndunarhlé á klukkustund. Fall á súrefnismettun fylgir þessum öndunarhléum og álag á hjarta og æðakerfi eykst. Einnig trufla öndunarhlé svefngæði sjúklings. Einstaklingar með kæfisvefn eiga því til að vakna þreyttir og illa endurnærðir þrátt fyri fullan nætursvefn.

Kæfisvefn getur haft töluverð áhrif daglegt líf. Einkenni kæfisvefns geta komið fram bæði á meðan svefni stendur og einnig í vöku. Helstu einkenni kæfisvefns í svefni eru háværar hrotur, tíð öndunarhlé, uppvaknanir, nætursviti og almennt óvær svefn. Helstu einkenni kæfisvefns að degi til eru dagsyfja, einbeitingarskotur, syfja við akstur, þörf á því að leggja sig á daginn og minnistruflanir.

Hverjir fá kæfisvefn og hver eru áhrif hans á heilsu og líðan?

Kæfisvefn er algengari hjá körlum en konum og hætta á að greinast með kæfisvefn eykst með aldrinum. Helsti áhættuþáttur kæfisvefns er offita en sýnt hefur verið að offita veldur þrengslum í efri loftvegi sem veldur öndunartruflunum. Þeir sem eru í yfirþyngd eru því í aukinni hættu á að greinast með kæfisvefn og allt að 70% sjúklinga með kæfisvefn eru of þungir. Það virðist vera að því þyngri sem einstaklingurinn er, því meiri líkur séu á því að hann greinist með kæfisvefn. Grannir einstaklingar geta þó einnig þjáðst af kæfisvefn en ástæður kæfisvefns hjá grönnum einstaklingum geta verið þrengingar í efri loftvegi vegna annara þátta en ofþyngdar, s.s. lítil haka, nefskekkja, stór tunga eða stór úfur. Kæfisvefn hefur bein tengsl við heilsu og líðan. Sýnt hefur verið að einstaklingar með ómeðhöndlaðan kæfisvefn eru í aukinni hættu á hjarta- og æðasjúkdómum, háum blóðþrýsting, heilablóðfalli, sykursýki og þunglyndi. Ljóst er að mikilvægt er að meðhöndla kæfisvefn þar sem hann er að valda óæskilegum heilsufarslegum truflunum.

Mikilvægt er fyrir sjúklinga með kæfisvefn að huga vel að heilbrigðum lífsstíl. Ráðlagt er fyrir þá sem eru of þungir að létta sig með því að hreyfa sig reglulega og viðhalda hollu og næringarríku mataræði. Einnig er mikilvægt að viðhalda hollum svefnvenjum. Þannig er mikilvægt að fara að sofa á sama tíma og vakna á sama tíma og skapa rólega rútínu fyrir háttatíma, fjarlægja raftæki úr svefnherberginu, hlúa að svefnumhverfinu og nota rúmið einungis fyrir svefn og kynlíf. Einnig er æskilegt að takmarka neyslu koffeins og áfengis og forðast stórar máltíðir rétt fyrir svefn.

Algengasta og árangursríkasta meðferð við kæfisvefni er meðferð með svefnöndunartæki. Við meðferðina er nýtt tæki (CPAP – Continuous Positive Airway Pressure) sem tekur inn loft í gegnum síu og blæs því lofti undan þrýstingi í gegnum slöngu/barka í öndunargrímu sem sofið er með. Þrýstingur loftsins heldur öndunarveginum opnum og kemur þannig í veg fyrir að hann falli saman og að hlé verði á önduninni með tilheyrandi falli í súrefnismettun og truflun á svefni. Samhliða meðferðinni er stuðningur frá fjölskyldu og eftirfylgni hjá sérfræðingum mikilvægur þáttur svo að meðferðin gangi sem best. Undir vissum kringumstæðum getur virkað vel að nota bitgóm til að meðhöndla kæfisvefn þar sem bitgómurinn heldur hökunni frammi í svefni en þessari meðferð er fyrst og fremst beitt á einstaklinga með kæfisvefn á vægu stigi. Í sumum tilvikum geta skurðaðgerðir á efri loftvegi gagnast þeim sem þjást af kæfisvefn en aðeins lítill hluti einstaklinga með kæfisvefn gangast undir skurðaðgerð.

Til þess að komast í svefnrannsókn þurfa einstaklingar að leita til síns heimilsilæknis eða sérfræðilæknis. Læknar senda síðan beiðni á Svefndeild Landspítala eða aðra sérfræðilækna sem sinna svefnrannsóknum, sé talin þörf á rannsókn. Svefnrannsókn fer þannig fram að sofið er með mælitæki í eina nótt og getur rannsóknin farið fram í heimahúsi eða á sjúkrahúsi. Rannsókn í heimahúsi er framkvæmd með tækjabúnaði sem sjúklingur fær lánaðann yfir nótt og skilar síðan morguninn eftir. Með tækjabúnaðinum er skoðað öndunarhreyfingar, súrefnismettun, loftflæði um nef, hrotur og öndunarhljóð.

1350x350_svefn

  • Höfundur; Ingvar Guðjónsson, sálfræðinemi
  • Heimild: www.betrisvefn.is, 14. október 2019

 

Mynd: Vladislav Muslakov frá Unsplash