Netverslun með lyf - Hlaðvarp Lyfjastofnunar
Verslun og viðskipti á netinu færast í vöxt, og lyf eru seld þar eins og hver annar varningur. Og þó - því lyf eru ekki eins og hver annar varningur að því leyti að um framleiðslu þeirra, dreifingu og geymslu gilda strangari reglur en um flestar aðrar vörur.
Allt er það með öryggi notandans í huga, því afleiðingar af notkun lyfs sem ekki hefur fengið vottun lyfjayfirvalda um ítrustu kröfur, geta verið alvarlegar. Ríki heims hafa því víðast hvar sett skýrar reglur um sölu lyfja gegnum netið.
Á EES svæðinu hefur þannig verið innleitt sameiginlegt kennimerki fyrir netapótek, til að aðstoða neytendur við að beina viðskiptum sínum til lögmætra vefverslana með lyf. Kennimerkinu er ætlað að fyrirbyggja að ólögleg og fölsuð lyf fari í dreifingu til almennings. –Rætt við Sindra Kristjánsson, lögfræðing hjá Lyfjastofnun.