Fyrsta fasta fæða barna
Átta punktar sem vert er að hafa í huga
- Undirbúningur
Barnið lætur oft vita þegar það þarfnast meiri fæðu. Bæði sýnir það mat meiri áhuga en áður og ókyrrist fyrr eftir brjóstagjöf eða pelagjöf. Ef mjólkin virðist ekki nægja barninu þrátt fyrir aukna tíðni gjafa þá getur verið gott að byrja að gefa ábót eftir brjóstagjöf/pela. Ekki er ráðlagt að byrja að gefa barni fasta fæðu fyrr en eftir fjögurra mánaða aldur. - Hreinlæti
Mikilvægt er að gæta fyllsta hreinlætis þegar matur fyrir ungbörn er útbúinn, passa upp á handþvott og að ílát og áhöld sé hrein við matarundirbúning. Einnig er mikilvægt að passa upp á að flysja og sjóða allt grænmeti vel. - Grautar, mauk og fjölbreytni Til að byrja með er gott að gefa barni maukaða fæðu í smáum skömmtum. Ungbarnagrautur og/eða maukað grænmeti/ávextir eru góð fyrsta fæða fyrir lítil börn. Gott er að byrja að gefa eina tegund af fæðu til dæmis hirsigraut nokkra daga í senn og blanda honum síðan saman við næstu tegund sem þú vilt prófa til að mynda maukaða lárperu til að útiloka óþol/ofnæmisviðbrögð hjá barninu. Fæðan má gjarnan vera fjölbreyttari eftir því sem líður á og skammtarnir stærri. Mikilvægt er að kynna Omega-3 olíu til sögunnar eins og til dæmis krakkalýsi og halda áfram að gefa daglega 10 míkrógrömm af D-vítamíndropum.
- Gott að bíða með ákveðna fæðu
Litlir magar þola oft illa fæðu eins jarðarber og kúamjólk, svo gott er að bíða með slíkar fæðutegundir fram að 12 mánaða aldri. Eins er gott að bíða með flestar hnetur, krydd og sæta drykki þar til barnið hefur náð eins árs aldri. - Máltíðir
Börn eru misjöfn og því ekki nákvæm vísindi sem segja til um hversu marga eða hversu stóra skammta á að bæta við á degi hverjum. Þú og barnið þitt finnið yfirleitt út úr því saman. Ef þú þarft á ráðleggingum að halda þá er hægt að hafa samband við ungbarnavernd í þínu hverfi. - Skipulag
Það er nóg að gera hjá fjölskyldu með ungbarn og því getur verið gott að huga að skipulagi máltíða. Gott getur verið að gera stærri skammta í einu og frysta í litlum skömmtum fyrir barnið eftir því sem þarfir barnsins verða meiri. Í dag fást víða lítil frystibox í þessum tilgangi svo hægt er að sjóða, mauka og frysta einstaka grænmeti, ávexti og kjöt og hita með lítilli fyrirhöfn þegar komið er að matartíma. - Innsæi og aðstoð
Móðir/faðir og barn finna oftast út úr sínum málum sjálf. Eðlið er sterkt og foreldrar þekkja sitt barn best. Hinsvegar skaltu vera óhrædd/ur við að biðja um aðstoð þegar þú telur þig þurfa á henni að halda. Þú getur haft samband við ungbarnavernd, leitað aðstoðar hjá næringarráðgjafa/fræðingi og ráðfært þig við aðra sem þú treystir. - Hraust sál í hraustum líkama
Góð næring eflir alla þroskaþætti. Góð næring þýðir betri varnir gagnvart sýkingum, styrkir jafnari orku og vellíðan barns. Góð næring eflir líkamlega og andlega heilsu og byggir upp sterkari líkama til framtíðar.
Einnig er gott að leita að góðum ráðleggingum á vef Landlæknisembættisins, landlaeknir.is.
Tekið saman af Rakel Sigurðardóttur, næringarfræðingi
Mynd af skeiðum: Melina Bronca frá Unsplash