Fyrirlestur og örnámskeið með Guðna Gunnarssyni.
Guðni kemur þér í gang með núvitund (mindfulness), djúpslökun, æfingar og einstaka öndunartækni, sem gefur þér slökun, næringu og ró. Á örnámskeiðinu segir þú stressinu stríð á hendur og nærð árangri, sem fylgir þér inn í veturinn.
Það sem þú lærir og öðlast er:
- Hvað er íhugun (núvitund, mindfulness) og hvað getur hún gert fyrir þig
- Mismunandi leiðir til að stunda og vera í vitund, árverkni
- Hvernig þú hámarkar umfang og gæði öndunar
- Hvernig þú getur nýtt öndunartækni til að róa þig eða örva – tendra ljós þitt og ástríður
- Hvernig þú hámarkar hvíld og gæði svefns og endurnæringar
Vertu vakandi og ákveddu sjálf(ur) hvernig þín upplifun og tilvist er. Þetta stutt námskeið sem býður samt upp á einstakt vitundar ferðalag og varanleg verkfæri.
Sitjandi hugleiðsla
Komdu þér fyrir á stól eða skapaðu aðstæður sem henta fyrir friðsamlega aðgerð.
Í þessari hugleiðslu þjálfum við okkur í að láta okkur í friði – að leyfa okkur að upplifa frið.
Allt sem þú veitir athygli vex og dafnar og þú hefur líklega eins og flestir aðrir verið að þjálfa þig í að vera ekki til friðs í þinni tilvist – vera ófriðsamur í eigin garð með einelti og ýmsum ákúrum sem mynda ótta og vanmátt. Góðu fréttirnar eru að ef þú getur látið þér líða illa eða valdið þér ónæði, ófriði, óróa og ótta þá geturðu líka látið þér líða vel, verið friðsamur í eigin hjarta, fyrst í eigin garð og síðan annarra.
Láttu þig í frið
Eins og áður hefur verið rætt eru aðeins tvö ríkjandi viðhorf í tilvist okkar, þ.e. athygli eða vanlíðan, að vera eða vera ekki, vilja sig eða vilja sig ekki, þakklæti eða vanþakklæti. Þetta er hinn stóri sannleikur og þú ræður alltaf hvaða viðhorf þú velur þegar þú ert fullvalda og valfær vera, mætt í vitund.
HVERS VEGNA HUGLEIÐSLA?
- Hugleiðsla virkjar vitund hjartans og ástand einingar
- Hugleiðsla verður vettvangur vitundar og umgjörð einingar og anda
- Hugleiðsla minnkar vægi hugans og dregur úr tvístrun og blekkingu
- Hugleiðsla dregur úr súrefnisnotkun um 10–20% og kallar fram hvíldarástand sem er dýpra en venjulegur svefn
- Hugleiðsla dregur úr mjólkursýrum sem einkenna stress og streitu
- Hugleiðsla dregur úr framleiðslu líkamans á kortísól, sem er oft kallað streituhormónið, en eykur framleiðslu á róandi hormónunum melatónín og serótónín
- Hugleiðsla dregur úr framleiðslu öldrunarhormóna
- Hugleiðsla dregur úr blóðþrýstingi
- Þeir sem stunda hugleiðslu reglulega og til lengri tíma eru í minni hættu á að fá hjartasjúkdóma
Við hættum aldrei að hugsa því að heilinn er dugleg og falleg vél sem tekur sér aldrei frí. En að tengja sjálfsmynd okkar og persónuleika við þessa vél leiðir til vansældar. Þannig verður skortdýrið til – þegar við trúum því að við séum hugsanir okkar.
Um leið og við hættum að dæma hugsanir okkar og látum af afstöðunni og viðhorfinu gagnvart þeim öðlumst við hreinan hug. Við aftengjum hugsanirnar frá tilfinningunum og í því ástandi er kyrrðina og friðinn að finna. Frumur alls líkamans andvarpa af feginleik þegar við hugleiðum, því þannig gefum við þeim hvíld og rými til að endurnýja sig og sendum þeim aukinn súrefnisforða.
Hugleiðsla á ekki að vera áraun. Hún á ekki að snúast um að rembast og reyna. Margir halda að hugleiðsla snúist um að slökkva á hugsunum sínum. Þeir sem gera það verða alltaf vonsviknir þegar þeir verða þess varir, í hugleiðslunni, að þeir eru farnir að hugsa aftur og enn einu sinni.
Þessu er þveröfugt farið. Við reynum ekki að slökkva á hugsunum okkar, en skiljum að þegar við hugleiðum í vitund erum við ekki í viðnámi gagnvart þeim heldur fylgjumst við einfaldlega með þeim án þess að dæma. Það hefur kyrrð og ró í för með sér – þar fer hvíldin fram. Í raun eigum við að fagna því augnabliki þegar við skynjum hugsanirnar að nýju, því að á því augnabliki erum við aftur mætt á svæðið – þá finnum við að við erum dottin inn í fjarveru og hugsanir og getum snúið aftur.
Við dæmum ekki brottförina heldur fögnum við endurkomunni í hvert einasta skipti, því að komin erum við máttug.