Augnþurrkur | einkenni og góð ráð

Almenn fræðsla Augnsjúkdómar Augun

Sirka 25% af fullorðnu fólki finna fyrir augnþurrki á einhverju tímabili. Annað hvort er of lítil táraframleiðsla eða að tárin sem eru framleidd eru af lélegum gæðum. Einkenni geta verið mismunandi milli einstaklinga og óþægindin í augum geta verið með eða án sjóntruflana. Einkennin geta líka verið mismunandi eftir tímabilum hjá sama einstaklingi.

Dæmi um einkenni augnþurrks eru m.a.:

  • Sviði í augum
  • Aukið tárarennsli
  • Tilfinning um sand eða kusk í augum
  • Erfiðleikar með að opna augun á morgnana
  • Viðkvæmni í augum fyrir ljósi
  • Roði í augum og/eða bólgin augnlok
  • Ógreinileg sjón
  • Þreytt eða aum augu eftir vinnu við tölvur

Yfirborð augans er þakið þunnri filmu sem kallast tárafilma. Hlutverk hennar er að smyrja augað, skola burtu aðskotaefnum úr auganu, vernda gegn sýkingum og halda yfirborði sléttu og tæru. Tárafilman samanstendur af 3 lögum þ.e. fitu-, slím- og vatnslagi.

  • Fitulagið hindar að tárafilman gufi upp og er aðallega framleitt af kirtlum (meibomian gland) á augnloksrönd á efri og neðri augnlokum. Það eru um 40-50 fitukirtlar í efra augnloki og 20-30 í neðra augnloki.
  • Slímlagið heldur tárafilmunni fastri við yfirborð augans (við hornhimnuna).
  • Vatnslagið er framleitt af tárakirtlum sem eru fyrir ofan augað.

Tárafilman gegnir mikilvægu hlutverki fyrir augað. Meðal annars til að auðvelda hreyfingar á augnloki, sjá um næringu fyrir hornhimnu augans, viðhalda heilbrigðu yfirborði fyrir sjónina, vernda augað fyrir ertandi efnum og hitastigsbreytingum og útrýma bakteríum og skaðlegum efnum á yfirborði augans. Allt sem raskar jafnvægi þessarar 3ja laga tárafilmu getur valdið skaða og valdið augnþurrki.

Af hverju fær fólk augnþurrk?

Ef framleiðsla af tárum minnkar eða gæði táranna eru léleg (aukin uppgufun), þorna augun og verða auðertanleg. Þetta gerist vegna þess að tárafilman kemst í ójafnvægi.

Hvarmabólga (Blepharitis) er samheiti yfir mismunandi tegundir bólgutilfella í augnlokum.

Einkenni hvarmabólgu eru:

  • Bólgin augnloksrönd og stíflaðir kirtlar
  • Rauð og bólgin augnloksrönd með skorpu, fitu eða skrælnuðum húðfrumum í augnhárum
  • Kláði, erting eða lekandi augu (t.d. við ofnæmi eða sýkingu)
  • Hvarmabólga er oft langvarandi ástand og krefst oft daglegrar hreinsunar á augnlokum
  • Hvarmabólga getur leitt til augnþurrks

Ein af algengustu orsökum augnþurrks er það sem kallast MGD (Meibomian Gland Dysfunction) en það er vegna kirtla sem sitja í augnloksröndinni og framleiða fitu fyrir tárafilmuna og hindra uppgufun úr henni. Ef þessir kirtlar virka ekki sem skildi eða gæðin af fitu úr kirtlunum er ekki góð þá getur það valdið augnþurrki vegna þess að rakinn úr augunum gufar of fljótt upp. Oft eru kirtlarnir einnig stíflaðir af þykkum vökva og getur því mild hreinsun á augnsvæði auk nudds á augnloksrönd hjálpað til að laga ástandið.

Áhættuþættir augnþurrks:

Nokkrir þættir geta haft áhrif á að fólk fær augnþurrk en þeir eru helst:

  • Aldur fólks (fólk yfir 40 ára er t.d. mun líklegra til að vera með skerta framleiðslu á fitu úr kirtlum í auganu (MGD)
  • Kyn – fleiri konur en karlar fá augnþurrk (og 3x fleiri Asíubúar en Evrópubúar)
  • Notkun á linsum
  • Augnfarði (eyeliner getur stíflað kirtlaop og ef farði er ekki hreinsaður af fyrir nóttina)
  • Aðgerðir á augum s.s. eftir aðgerðir til að laga sjón eða gláku
  • Ákveðnir sjúkdómar s.s. sykursýki og gigtarsjúkdómar, rósroði og sjálfsónæmissjúkdómar
  • Ákveðin lyf s.s. þunglyndislyf, ofnæmislyf, vatnslosandi lyf, blóðþrýstingslyf, A-vítamín lyf (retinoid) sem notuð eru við húðsjúkdómum, getnaðarvarnarpillan o.fl.
  • Inniloft með lágum raka
  • Vinna við tölvur
  • Bakteríusýkingar (bakteríusýkingar geta verið orsök eða afleiðing af MGD. Ef tárafilman er ekki í lagi er augað viðkvæmara fyrir sýkingum).

Meðhöndlun á augnþurrki:

  • Best er að nota augndropa án rotvarnarefna (augndropar eru til frá mismunandi framleiðendum, bæði í létt fljótandi dropum og geli (hlaupi), með og án rotvarnarefna
  • Mild hreinsun á augnsvæði er mikilvæg
  • Sumir augndropar innihalda frumuverndandi efni (t.d. Thealoz)

Augndropar (oft kallaðir gervitár), eru notaðir eftir þörfum og suma má nota í augað þó fólk sé með linsur (ef án rotvarnarefna).

Augngel er langverkandi (hefur lengri verkun en dropar) og er gott að nota það t.d. fyrir nóttina ef fólk finnur fyrir augnþurrk eftir nóttina. Það má líka nota á daginn ef þörf er á extra mikilli hjálp á ákveðnum tímum dagsins.

Ekki er gott að nota dropa með benzalkonium klóríð rotvarnarefni því það getur valdið meiri augnþurrki. Öll rotvarnarefni geta truflað augað (fitulagið og minnkað slímframleiðslu). Augndropar eiga bæði að gefa raka og vernda, gera tárafilmuna þykkari og stöðugri. Þannig mildast einkenni augnþurrks. Þegar augað er þurrt verður ójafnvægi og yfirborðsfrumurnar bæta upp rakaskort með því að losa raka, yfirborðsfruma getur þá þurrkast út og dáið. Mikilvægt er að gefa raka og vernda frumur í auganu.

Góðir augndropar eru rakagefandi (innihalda t.d. hýalúronsýru) og smyrja augað, minnka uppgufun tára, binda raka í auganu og vernda yfirborðsfrumur í auganu gegn þurrki og frumudauða.

Þegar augað er þurrt verður tárafilman hýpertónísk þ.e. með hærra saltinnihaldi en venjulegur táravökvi er með. Þess vegna eiga dropar að vera hýpótónískir þ.e. með lægra saltinnihaldi til að koma jafnvægi á saltinnihaldið í táravökvanum. Droparnir eiga líka að vera með hlutlaust sýrustig.

Meðhöndlun á augnþurrki:

  1. Fyrsta skref er notkun á augndropum eða geli
  2. Annað skref er mild hreinsun á augnlokum sem getur leitt til betri gæða og magns á fitulagi tárafilmunnar. Augun verða minna þurr þar sem þau eru betur smurð og minni uppgufun er frá yfirborði augans. Hreinsun á augnlokum getur einnig haft þau áhrif að augndropar hafa betri virkni. Stundum eru settar heitar grysjur eða heitir klútar sem settir eru yfir augað í ca. 10 mínútur. Einnig eru til augnmaskar sem hægt er að hita og leggja yfir augað. Gott er að nudda með litlum hringlaga hreyfingum á efra og neðra augnlok með hreinum fingri. Ef augað er hreinsað með sérstökum klútum er annað augað hreinsað fyrst og þá bæði efri og neðri augnloksrönd sem fjarlægir óhreinindi sem gætu hafa stíflað kirtlaopin. Hreinsun á augum er mikilvægur þáttur í meðhöndlun augnþurrks og gott að gera það kvölds og morgna í 3 vikur og svo 1 sinni á dag. Við erfið tilfelli getur þurft að hreinsa í 12 vikur kvölds og morgna og ef það hjálpar ekki þarf að hafa samband við lækni.

Hverjir eru í áhættu á að fá augnþurrk?

  • Börn og unglingar sem eru með acne (gelgjubólur) eða exem eru í meiri áhættu á að vera með augnþurrk.
  • Yfir 50% af sykursjúkum eru með þetta vandamál.
  • Augnþurrkur getur haft áhrif á sjónina þar sem yfirborð augans getur breyst og ljósbrot breyst.
  • Þeir sem eru með augnþurrk geta átt í vandræðum með að vera með linsur og því er mikilvægt fyrir þá að hreinsa vel augað og nota augndropa.
  • Þurr húð og þurr augu eru oft samhliða.
  • Meira en 50% þeirra sem eru með gláku fá augnþurrk og þurfa meðhöndlun á honum.
  • Sumir læknar ráðleggja ómega-3 fitusýrur sem gætu hjálpað eitthvað

Einkenni augnþurrkst geta verið mismunandi og óþægindi í augum geta verið með eða án sjóntruflana. Það getur verið erfitt að átta sig á því að þetta sé augnþurrkur þegar einkennin eru mismunandi eftir tímabilum. Gott er að spyrja fólk eftirfarandi:

  • Hvaða einkenni eru að angra þig/trufla þig?

Algeng einkenni eru sviði í augum, tárarennsli, upplifun að það sé sandur/óhreinindi í augum, roði í augum, þreytt augu, aum augu, ljósviðkvæmni í augum og erfiðara að opna augun á morgnana eða styttri þol á að vera með linsur.

  • Einnig er gott að spyrja. Hversu oft finnur þú fyrir augnþurrki og er það í ákveðnum aðstæðum?

Ef fólk finnur t.d. fyrir þurrki við vinnu við tölvur eða við notkun á linsum, þá er ráðlagt að nota dropa án rotvarnarefna 2-4 sinnum á dag og hreinsa augnsvæði reglulega. Ef einkenni/óþægindi eru allan sólarhringinn er gott að nota dropa án rotvarnarefna 4-6 sinnum á dag og gel fyrir nóttina og um morguninn. Hægt er einnig að ráðleggja hita, nudd og hreinsun á augnsvæðinu.

Ef fólk finnur mikinn kláða í augum á vorin/sumrin getur það verið vegna ofnæmis. Þá er hægt að ráðleggja augndropa án rotvarnarefna eins og Zaditen stakskammtahylki og milda hreinsun eins og með Blephaclean (fyrir utan það að taka ofnæmistöflur). Mikilvægt er að fjarlægja restar af frjókornum og slími (seytingum) sem geta ert augað.

Blephaclean eru sterílir klútar/gel sem eru ráðlagðir við m.a. augnþurrki, hvarmabólgu, klístruðum augum t.d. vegna ofnæmis eða sýkingar, eða fyrir aðgerðir á augum. Blephaclean inniheldur rakagefandi og mýkjandi hýalúronsýru. Það er án rotvarnarefna/alkóhóls/ilmefna og hreinsar slím og fleira án þess að erta augað.

Augun_vorur_1350x350_vorur

Mynd; Vanessa Bumbeers onUnsplash

Guðrún Kjartansdóttir, lyfjafræðingur hjá Lyfju