Augnsýking | einkenni og góð ráð

Almenn fræðsla Augnsjúkdómar Augun

Ýmsar örverur geta sýkt augað s.s. bakteríur, sveppir og veirur. Einkenni augnsýkingar eru meðal annars roði, verkur, gröftur, viðkvæmni fyrir ljósi, bólga, kláði, þokusjón o.fl. Hægt er að hafa einkenni í öðru eða báðum augum. Mikilvægt er að leita til læknis ef grunur leikur á augnsýkingu, eða ef einkenni lagast ekki innan 1-2 daga, því ómeðhöndluð sýking getur orðið hættuleg og valdið sjónskaða.

Læknir getur ávísað dropum eða smyrsli við sýkingunni. Ef fólk notar linsur ætti það að hætta því þar til sýking hefur lagast. Annað sem getur verið að angra augun er t.d. hvarmabólga (jaðrar augnlokanna bólgna) og vogris (augnloksþrymlar). Það er yfirleitt vegna stíflaðra fitukirtla og er oftast ekki smitandi. Þurrkur í augum og hvarmabólga eru oft samhliða. Ef vogris verður þrálátur eða kemur með stuttu millibili getur þurft að meðhöndla hann með sýklalyfjum í augu.

Hvað er hægt að gera til að létta á einkennum sýkingar?

  • Nota saltvatnslausn sem hreinsar augað af ertandi efnum.
  • Klútar sem ætlaðir eru fyrir augu til að hreinsa augnsvæði (t.d. Blephaclean ).
  • Gervitár ef augnþurrkur er til staðar. Skoða gervitár hér.
  • Kæli- eða hitabakstrar geta dregið úr bólgu og slegið á verki. Passa að hitabakstur sé ekki of heitur (hægt að kaupa í apóteki). Skoða hér.

Notkun augnlyfja

  • Augndropar eru settir í auga með því að halla höfðinu aftur, horfa upp og draga neðra augnlok niður, eða með því að setja lyfið beint í útdregið neðra augnlok og láta 1 dropa detta í augað. Passa að láta stútinn ekki snerta augað. Loka auganum í ca. 30 sekúndur. Skoða augndropa hér.
  • Ef setja á fleiri en 1 dropa þarf að bíða í nokkrar mínútur á milli áður en næsti dropi er settur í augað.
  • Með hreinum fingri má styðja við tárakirtil við augnkrók (með lokað augað) í smá stund til að fyrirbyggja að lyfið renni niður í nefkokið og munninn.
  • Augnsmyrsli er sett í neðra augnlok, ca. 1 cm löng rönd. Auganu lokað í ca. 30 sekúndur. Sjónin gæti verið óskýr í smá tíma á eftir!
  • Ef gröftur er í auganu þarf að hreinsa það (með volgu vatni í bómull eða með sérstökum hreinsiklútum eða saltvatnslausn fyrir augu) áður en lyfið er sett í.
  • Þurrkið kringum augað með mjúkum klút/bréfi ef eitthvað af lyfinu lekur niður.
  • Þvoið hendur fyrir og eftir notkun lyfjanna.
  • Flest lyf við augnsýkingum eru geymd við stofuhita og hafa 4 vikna endingartíma eftir opnun.
  • Ef þú ert að nota fleiri en eina tegund af augnlyfi þurfa líða a.m.k. 5 mínútur á milli lyfjanna og ef annað lyfið er smyrsli á að enda á því.
  • Ef barn á að nota lyfið má biðja það að loka auganu í 2 mínútur eftir að lyfið er komið í, eða leggjast og setja svo lyfið í augnkrókinn (þó að barnið vilji ekki opna augað) og biðja barnið að blikka auganu svo lyfið komist inn í augað.
  • Spurðu lyfjafræðing þegar þú sækir lyfin ef þú ert í vafa um hvernig á að nota þau.
  • Aldrei deila notkun á augnlyfjum/augnsnyrtivörum með öðrum.
  • Passaðu að nota lyfin allan tímann sem læknir hefur gefið fyrirmæli um.
  • Skilaðu restum af augnlyfjum í apótek til eyðingar.

 Augun_vorur_1350x350_vorur

Guðrún Kjartansdóttir, lyfjafræðingur hjá Lyfju

Mynd: salvatore ventura on Unsplash