Áhrif krabbameinslyfjameðferðar á húð og slímhúð
Mikilvægt er að huga að húðumhirðu fyrir og samhliða krabbameinsmeðferð til að forðast erfiðar aukaverkanir.
Lyfjameðferð er ein tegund krabbameinsmeðferða. Hún felur í sér að gefin eru ákveðin lyf með það að markmiði að veikja krabbameinsfrumurnar og hamla vexti þeirra, fjölgun og dreifingu. Lyfin dreifast með blóðrásinni um líkamann og ná þannig til krabbameinsfrumnanna en dreifingin er þó ekki bara bundin við þær heldur verða aðrar, heilbrigðar frumur einnig fyrir áhrifum lyfjanna. Það eru aðallega frumur sem einkennast af því að vaxa hratt og fjölga sér ört eins og frumur í beinmerg, slímhúð og frumur í kynkirtlum og hársverði. Lyfin geta því valdið skemmdum á þessum heilbrigðu frumum um leið og þær hafa tilætluð áhrif á krabbameinsfrumurnar. Það getur leitt til erfiðra aukaverkana á þeim svæðum sem frumuskemmdir verða, svo sem hármissi og særindum í slímhúð t.d. í munni, meltingarvegi, augum og leggöngum. Í sumum tilfellum hafa lyfin áhrif á húðfrumur sem lýsir sér meðal annars sem þurrkur og erting í húð, roði útbrot og kláði.
Að viðhalda heilbrigðri húð og meðhöndlun húðvandamála
Vegna áhrifa krabbameinslyfja á húðfrumur, er mikilvægt að bera rakakrem á húðina og nota handáburð, þar sem fingurgómar eru gjarnan útsettir fyrir þurrki og sárum. Þetta er gert í fyrirbyggjandi skyni, en einnig ef einkenni húðvandamála hafa þegar gert vart við sig. Mælt er með rakakremum með náttúrulegum innihaldsefnum og E-vítamini, sem talið er verndandi gegn húðvandamálum. Þar sem húðin getur verið mjög viðkvæm af völdum lyfjanna ætti að nota öfluga sólarvörn yfir sumarmánuðina. Þá er einnig ráðlagt að drekka vel af vatni og neyta næringarríkrar fæðu. Ef húðvandamál versna þrátt fyrir ráðlagðar húðmeðferðir, ætti að leita til heilbrigðisstarfsfólks til frekari meðferða.
Slímhúðin og mikilvægi fyrirbyggjandi meðferða
- Áhrif á slímhúð getur leitt til þrálátra sára og sýkinga
Mikilvægt er að beita viðeigandi ráðum til að koma í veg fyrir myndun sára í slímhúð í munni, þar sem slík sár eru útsett fyrir sýkingum af völdum veira og baktería, auk þess sem þau geta valdið óþægindum og vanlíðan. Markmið með fyrirbyggjandi meðferð er að halda vörum og munnholi röku, til dæmis með því að sjúga ísmola og drekka vel af vatni, auk þess sem ísmolar lina eymsli séu þau til staðar Einnig er hægt að kaupa munnvatnsörvandi munnsogstöflur og gel í apótekum í þeim tilgangi að halda munnholi röku og koma í veg fyrir þurrk og sár. Ef varir eru þurrar er mælt með að nota varasalva. Mikilvægt er að læknir skoði og leggi mat á einkenni við upphaf þeirra.
Góð munn- og tannhirða er afar mikilvæg þar sem lyfjameðferðin getur haft áhrif á tennur og tannhold. Mikilvægt er að fá faglegt mat og ráðleggingar hjá tannlækni áður en meðferðin hefst.
Þetta efni auk annarra upplýsinga, er að finna á vef Krabbameinsfélagsins www.krabb.is.
Krabbameinsfélagið býður reglulega upp á námskeiðið Gott útlit – betri líðan sem ætlað er fyrir konur í krabbameinsmeðferð. Á námskeiðinu fer sérfræðingur yfir umhirðu húðar, förðun og fleira. Fáðu góð ráð og skráðu þig á næsta námskeið á radgjof@krabb.is. Námskeiðin eru án endurgjalds vegna stuðnings styrktaraðila.
Ef þú hefur spurningar um krabbamein, vantar ráðgjöf eða stuðning, hafðu þá samband í síma 800 4040 eða sendu póst á netfangið radgjof@krabb.is .