Rivastigmine Teva
Lyf við heilabilun | Verðflokkur: G | Lyfseðilsskylt
Virkt innihaldsefni: Rívastigmín
Markaðsleyfishafi: Teva B.V. | Skráð: 9. nóvember, 2022
Rivastigmine Teva er við Alzheimerssjúkdómi. Alzheimerssjúkdómur er eitt algengasta form heilabilunar og lýsir sér í truflun á minni, hegðun og athöfnum daglegs lífs. Einstaklingar með Alzheimerssjúkdóm verða fyrst fyrir truflunum á skammtímaminni, síðar fylgja breytingar á hegðun og færni til þess að lifa daglegu lífi. Ástæður sjúkdómsins eru ekki að fullu skýrðar og við honum er engin lækning. Ein skýringin er sú að skortur verði á taugaboðefninu acetýlkólíni í vissum hlutum heilans, aðallega heilaberki og svokölluðum dreka í heila (hippocampus). Acetýlkólín er brotið niður af ensíminu acetýlkólínesterasa. Rívastigmín, virka efnið í Rivastigmine Teva, hemur verkun þessa ensíms í heila, hægir þar af leiðandi á niðurbroti acetýlkólíns og eykur um leið magn þess í heila. Með þessu móti bætir lyfið vitsmunalega færni sjúklinga með Alzheimerssjúkdóminn. Rivastigmine Teva er notað til meðferðar hjá fullorðnum sjúklingum með væg eða í meðallagi alvarleg Alzheimersvitglöp, versnandi heilasjúkdóm sem hefur stigvaxandi áhrif á minni, vitsmunalega getu og hegðun. Áhrif lyfsins eru mjög einstaklingsbundin. Lyfið læknar ekki Alzheimerssjúkdóminn og ennþá hefur ekki fundist lyf sem gerir það. Lyfið getur engu að síður hægt á framgangi sjúkdómsins og bætt líðan sjúklinganna í ákveðinn tíma.
Notkun á lyfi
Lyfjaform:
Forðaplástur á húð.
Venjulegar skammtastærðir:
1 plástur á húð daglega. Plástur gefur frá sér 4,6 mg/24 klst. eða 9,5 mg/24 klst.
Hversu langur tími líður uns verkun kemur fram:
Mjög einstaklingsbundið, allt frá nokkrum dögum upp í nokkrar vikur.
Verkunartími:
Um 24 klst.
Þörf á að breyta mataræði meðan lyfið er tekið:
Engin.
Geymsla:
Geymist í lokuðum umbúðum við eða undir stofuhita þar sem börn hvorki ná til né sjá.
Ef skammtur gleymist:
Ef þér verður ljóst að þú hefur gleymt að setja á þig plástur skaltu tafarlaust setja á þig plástur. Þú mátt nota næsta plástur á venjulegum tíma daginn eftir. Ekki nota tvo plástra til að bæta upp plástur sem gleymst hefur að nota. Ef að liðnir eru meira en 3 dagar án þess að þú notaðir plásturinn skaltu hafa samband við lækni.
Hvernig á að hætta töku lyfsins:
Ekki er æskilegt að hætta notkun lyfsins nema í samráði við lækni.
Ef tekinn er of stór skammtur:
Aukin hætta er á aukaverkunum, aðallega ógleði, uppköstum og niðurgangi, en lítil hætta á öðrum einkennum. Ef of stór skammtur af lyfinu hefur verið notaður, eða ef barn hefur í ógáti tekin inn lyfið skal hafa samband við lækni, sjúkrahús eða eitrunarmiðstöð (sími 543 2222).
Langtímanotkun:
Óhætt er að nota lyfið í langan tíma, svo lengi sem það sýnir árangur, og er það mat læknis hvenær skal hætta töku þess. Fylgjast skal með þyngd sjúklings meðan á meðferð stendur.
Aukaverkanir
Aukaverkanir eru almennt vægar og koma helst fram í upphafi meðferðar eða þegar verið er að auka skammtinn. Þær standa yfirleitt stutt yfir og hverfa oftast af sjálfu sér án sérstakrar meðferðar.
Aukaverkun | Tíðni | Leitið til læknis vegna einkenna | Leitaðu strax til læknis | Hættu strax töku lyfs | |||
---|---|---|---|---|---|---|---|
Algeng >1% | Sjaldgæf <1% | Ekki þekkt | Sem eru alvarleg | Í öllum tilvikum | |||
Hjartsláttartruflanir, hraður hjartsláttur | |||||||
Krampar | |||||||
Lystarleysi | |||||||
Ógleði, uppköst | |||||||
Skapgerðarbreytingar, ofskynjanir | |||||||
Skjálfti | |||||||
Sundl | |||||||
Viðbrögð í húð á plástursstað | |||||||
Þvagleki |
Milliverkanir
Lyfið hefur verið prófað með tilliti til milliverkana við mjög mörg algeng lyf sem Alzheimerssjúklingar nota og engin hætta á milliverkunum við þau komið í ljós. Varast ber að nota rívastigmín með lyfjum sem hafa áhrif á virkni asetýlkólíns, en það eru helst sefandi geðlyf, sum meltingarfæralyf, svo sem cisapríð, og parkinsonslyfið bíperíden (Akineton).
Sjá öll lyf sem geta haft áhrif á
Má ekki nota með
Getur haft áhrif á
Varúð
Læknir sem ávísar lyfinu þarf að vita hvort
- grunur leiki á um þungun eða að þú sért með barn á brjósti
- þú sért með astma eða annan lungnasjúkdóm
- þú sért með flogaveiki
- þú sért með hjarta- eða æðasjúkdóm
- þú sért með langvarandi nýrna- eða lifrarsjúkdóm
- þú sért með maga- eða skeifugarnarsár
- þú sért með ofnæmi fyrir virka efninu eða einhverju hjálparefnanna
- þú sért með þvagfærasjúkdóm
- þú takir einhver önnur lyf
Meðganga:
Ekki má nota Rivastigmine Teva á meðgöngu nema brýna nauðsyn beri til.
Brjóstagjöf:
Konur sem nota Rivastigmine Teva forðaplástra mega ekki hafa barn á brjósti.
Börn:
Lyfið er ekki ætlað börnum yngri en 18 ára.
Eldra fólk:
Venjulegar skammtastærðir.
Akstur:
Lyfið getur valdið svima og syfju og því skert aksturshæfni. Læknir ætti að meta hæfni Alzheimerssjúklings til aksturs.
Áfengi:
Ekki neyta áfengis meðan lyfið er tekið.
Íþróttir:
Leyft við æfingar og í keppni.
Annað:
Vegna sjúkdómseinkennanna er nauðsynlegt að umsjónarmaður sjúklingsins fylgist með lyfjatöku. Ef plástur losnar af skal setja nýjan á það sem eftir er sólarhringsins, síðan skal skipta um plástur á sama tíma og venjulega daginn eftir.
Nánari upplýsingar
Nánari upplýsingar um lyfið er að finna í SPC texta og í fylgiseðli lyfsins, sem má finna á heimasíðu Sérlyfjaskrá. Ef upplýsingar hér stangast á við þær upplýsingar ber að fara eftir SPC texta lyfsins og/eða fylgiseðli.