Ozempic

Sykursýkilyf | Verðflokkur: 0 | Lyfseðilsskylt

Virkt innihaldsefni: semaglútíð_

Markaðsleyfishafi: Novo Nordisk | Skráð: 1. janúar, 2019

Ozempic inniheldur virka efnið semaglútíð. Semaglútíð er sykursýkislyf og tilheyrir flokki glúkagonlík-peptíð-1 (GLP-1) hliðstæðna. Lyfið líkir eftir náttúrulega hormóninu GLP-1 sem er losað úr þörmum eftir máltíðir og hefur margvísleg áhrif á stjórnun glúkósa og matarlyst. Semaglútíð hjálpar líkamanum að minnka magn blóðsykurs, eingöngu þegar blóðsykurinn er of hár. Einnig hefur lyfið þau áhrif að minniháttar seinkun verður á magatæmingu fyrst eftir máltið og þú finnur fyrir seddutilfinningu, minna hungri og minnkar löngun í fituríkan mat. Þetta getur hjálpað þér við að borða minna og draga úr líkamsþyngd. Ozempic er ætlað til meðferðar hjá fullorðnum með sykursýki af tegund 2 og er notað annars vegar eitt og sér (einlyfjameðferð) ef þú getur ekki notað metformín (annað sykursýkislyf) og þú hefur ekki náð stjórn á blóðsykrinum. Hins vegar sem viðbót við önnur sykursýkislyf ef þau hafa ekki dugað til að ná stjórn á blóðsykrinum. Mikilvægt er að halda áfram að viðhalda heilbrigðum lífsstíl með hollu matarræði og hreyfingu með lyfjameðferð.


Notkun á lyfi

Lyfjaform:
Stungulyf í lyfjapenna, gefið undir húð á kvið, læri eða upphandlegg.

Venjulegar skammtastærðir:
Lyfið er gefið 1 sinni í viku. Upphafsskammtur er 0,25 mg einu sinni í viku í 4 vikur. Þá er hækkað í 0,5 mg einu sinni í viku. Viðhaldsskammtur er 0,5 mg - 1 mg einu sinni í viku.

Hversu langur tími líður uns verkun kemur fram:
Lyfið byrjar að lækka glúkósastyrk í blóði strax eftir fyrsta skammt en hámarksþéttni næst eftir 1-3 daga.

Verkunartími:
Lyfið er til staðar í blóðrásinni í um það bil 5 vikur eftir síðasta skammt.

Þörf á að breyta mataræði meðan lyfið er tekið:
Breytt mataræði og minnkuð sykurneysla er þáttur í meðferð.

Geymsla:
Geymið lyfið varið gegn ljósi þar sem börn hvorki ná til né sjá. Lyfið má ekki frjósa. Fyrir notkun: Geymið lyfið í kæli (2 - 8°C). Við notkun: Geymið lyfið við lægri hita en 30°C eða í kæli og geymist þá í allt að 6 vikur. Hafið hettuna ávalt á lyfjapennanum þegar hann er ekki í notkun.

Ef skammtur gleymist:
Takið skammtinn sem gleymdist eins fljótt og mögulegt er ef innan við 5 dagar eru liðnir frá því þú áttir að taka lyfið og gefa síðan næsta skammt sama tíma og venjulega. Ef meira en 5 dagar eru liðnir skal sleppa skammtinum sem gleymdist og gefa næsta skammt á sama degi og venjulega. Ekki á að tvöfalda skammt til að bæta upp skammt sem gleymst hefur að nota.

Hvernig á að hætta töku lyfsins:
Ekki skal hætta að nota Ozempic án þess að ráðfæra sig við lækni. Ef notkun þess er hætt getur blóðsykurinn aukist.

Ef tekinn er of stór skammtur:
Ef þú notar stærri skammt af Ozempic en mælt er fyrir um hafðu þá samband við lækninn eða eitrunarmiðstöð án tafar (sími: 543 2222). Þú gætir fengið aukaverkanir eins og ógleði.

Langtímanotkun:
Án vandkvæða.


Aukaverkanir

Algengustu aukaverkanirnar eru ógleði, niðurgangur og uppköst og voru þær yfirleitt skammvinnar og vægar eða í meðallagi alvarlegar.

Aukaverkun Tíðni Leitið til læknis vegna einkenna Leitaðu strax til læknis Hættu strax töku lyfs
Algeng >1% Sjaldgæf <1% Ekki þekkt Sem eru alvarleg Í öllum tilvikum    
Brisbólga: Hiti og kviðverkir          
Erting á stungustað          
Ógleði, uppköst, niðurgangur          
Of lágur blóðsykur          
Útbrot, kláði, bjúgur og öndunarerfiðleikar      
Vélindabakflæði, uppþemba          
Vindgangur          

Milliverkanir

Lyfið veldur seinkun á magatæmingu og því gæti lyfið haft áhrif á upptöku lyfja inn í líkamann sem eru gefin á sama tíma og Ozempic. Sérstalega á þetta við um lyf sem þarfnast hraða upptöku frá meltingarveginum.

Sjá öll lyf sem geta haft áhrif á

Má ekki nota með

Getur haft áhrif á


Varúð

Læknir sem ávísar lyfinu þarf að vita hvort
  • grunur leiki á um þungun eða að þú sért með barn á brjósti
  • þú sért með ofnæmi fyrir virka efninu eða einhverju hjálparefnanna
  • þú takir einhver önnur lyf
  • þú sért með augnsjúkdóm
  • þú sért með insúlínháða sykursýki (sykursýki af gerð 1)

Meðganga:
Lyfið má ekki nota á meðgöngu. Mælt er með því að konur á barneignaaldri noti getnaðarvarnir meðan á meðferð stendur.

Brjóstagjöf:
Konur með barn á brjósti mega ekki nota lyfið. Lyfið berst í brjóstamjólk.

Börn:
Lyfið er ekki ætlað börnum yngri en 18 ára.

Eldra fólk:
Venjulegar skammtastærðir.

Akstur:
Lyfið hefur ekki áhrif á aksturshæfni.

Áfengi:
Getur valdið lækkun á blóðsykri. Einkenni um lækkaðan blóðsykur líkjast að sumu leyti áhrifum áfengis. Það minnkar líkur á því að einkennin þekkist og að rétt sé brugðist við þeim. Sjúklingar sem nota lyfið ættu því helst ekki að neyta áfengis.

Íþróttir:
Leyft við æfingar og í keppni.


Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um lyfið er að finna í SPC texta og í fylgiseðli lyfsins, sem má finna á heimasíðu Sérlyfjaskrá. Ef upplýsingar hér stangast á við þær upplýsingar ber að fara eftir SPC texta lyfsins og/eða fylgiseðli.