Inovelon

Flogaveikilyf | Verðflokkur: G | Lyfseðilsskylt

Virkt innihaldsefni: Rúfínamíð

Markaðsleyfishafi: Eisai | Skráð: 1. september, 2007

Inovelon er flogaveikilyf. Lyfið er notað sem viðbótarmeðferð við flogaveiki í tengslum við Lennox-Gastaut-heilkenni hjá sjúklingum 4 ára og eldri. Lennox-Gastaut-heilkenni er sjaldgæfur langvinnur sjúkdómur sem greinist oft snemma á barnsaldri. Sjúkdómurinn lýsir sér með illvígum krömpum sem reynst hefur erfitt að meðhöndla, aðallega vegna þess hversu mismunandi og mörg flogin eru. Lyfið vinnur gegn flogaköstum með því að takmarka útbreiðslu taugaboða til heilans og hækkar þannig krampaþröskuldinn. Rannsóknir á Inovelon hafa sýnt góðar niðurstöður gagnvart þessum erfiða sjúkdómi og því binda flogaveikisjúklingar miklar vonir við ágæti lyfsins.


Notkun á lyfi

Lyfjaform:
Töflur til inntöku.

Venjulegar skammtastærðir:
Skammtar eru einstaklingsbundnir og háðir aldri og þyngd. Lyfið skal taka tvisvar á dag með vatni, að morgni og að kvöldi, í tveimur jafnstórum skömmtum og helst með mat.

Hversu langur tími líður uns verkun kemur fram:
Lyfið nær hámarksblóðþéttni eftir 6 klst. frá inntöku.

Verkunartími:
Ekki að fullu þekktur.

Þörf á að breyta mataræði meðan lyfið er tekið:
Engin.

Geymsla:
Geymist í lokuðum umbúðum við stofuhita þar sem börn hvorki ná til né sjá.

Ef skammtur gleymist:
Taktu lyfið um leið og þú manst eftir því. Ef stutt er til næsta skammts skaltu sleppa þeim sem gleymdist og halda áfram að taka lyfið eins og venjulega. Hafðu samband við lækni ef fleiri en einn skammtur gleymast. Ekki taka tvo skammta í einu nema samkvæmt ráði læknis.

Hvernig á að hætta töku lyfsins:
Ekki hætta töku lyfsins nema í samráði við lækni. Þegar meðferð er hætt skal minnka skammta smám saman til að draga úr líkum á fráhvarfseinkennum.

Ef tekinn er of stór skammtur:
Hafðu samband sem fyrst við lækninn þinn eða bráðamóttöku næsta sjúkrahúss.

Langtímanotkun:
Fylgjast þarf reglulega með árangri lyfjameðferðarinnar.


Aukaverkanir

Aukaverkun Tíðni Leitið til læknis vegna einkenna Leitaðu strax til læknis Hættu strax töku lyfs
Algeng >1% Sjaldgæf <1% Ekki þekkt Sem eru alvarleg Í öllum tilvikum    
Bakverkir          
Blóðnasir          
Flogaköst, krampar, óeðlilegar hreyfingar        
Höfuðverkur          
Kvíði, svefnleysi, skjálfti          
Meltingartruflanir, hægðatregða, niðurgangur, kviðverkir          
Minnkuð matarlyst, þyngdartap          
Svimi, svefndrungi, þreyta        
Sýkingar          
Tíðateppa          
Uppköst, klígja          
Útbrot, kláði        
Þokusýn, tvísýni          

Milliverkanir

Komið hefur í ljós að lyfið örvar ákveðið ensímkerfi í líkamanum og getur því dregið úr styrkleika lyfja sem hvarfast af völdum þessa ensíms. Rannsóknir sýndu þó fram á að áhrifin voru lítil. Lyfið getur dregið úr virkni getnaðarvarna til inntöku. Þess vegna er ráðlagt að nota aðra og öruggari getnaðarvörn að auki.

Sjá öll lyf sem geta haft áhrif á

Má ekki nota með

Getur haft áhrif á


Varúð

Læknir sem ávísar lyfinu þarf að vita hvort
  • grunur leiki á um þungun eða að þú sért með barn á brjósti
  • þú sért með ofnæmi fyrir virka efninu eða einhverju hjálparefnanna
  • þú takir einhver önnur lyf
  • þú sért með skerta lifrarstarfsemi

Meðganga:
Takmörkuð reynsla er af notkun lyfsins hjá þunguðum konum. Ekki ætti að nota lyfið nema gagnsemi þess fyrir móður sé talin vega þyngra en hugsanleg áhætta fyrir fóstrið.

Brjóstagjöf:
Ekki er vitað hvort lyfið berst í brjóstamjólk.

Börn:
Lyfið er ætlað börnum frá 4 ára aldri. Skammtar eru einstaklingsbundnir.

Eldra fólk:
Skammtar eru einstaklingsbundnir.

Akstur:
Auk þeirra áhrifa sem flogaveikin hefur sjálf, getur lyfið valdið svima, svefnhöfga og sjóntruflunum og þar með skert aksturshæfni. Ekki aka bíl fyrr en reynsla er komin á það hvaða áhrif lyfið hefur.

Áfengi:
Ekki neyta áfengis meðan lyfið er tekið.

Íþróttir:
Leyft við æfingar og í keppni.


Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um lyfið er að finna í SPC texta og í fylgiseðli lyfsins, sem má finna á heimasíðu Sérlyfjaskrá. Ef upplýsingar hér stangast á við þær upplýsingar ber að fara eftir SPC texta lyfsins og/eða fylgiseðli.