Sjálfbærni

Lyfja hefur markað sér þá stefnu að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga og umhverfisáhrifa vegna lyfjanotkunar. Lyfja hefur jafnframt einsett sér að stuðla að heilbrigðu líferni og vellíðan fyrir alla í gegnum öll lífsins skeið.  Stjórnun og starfsemi Lyfju tekur mið af jafnréttisáætlun, gæðastefnu, persónuverndarstefnu, samkeppnisréttaráætlun og stjórnkerfi upplýsinga. Unnið er samkvæmt gæðahandbók og stöðugt eftirlit er með lykilmælikvörðum. 

UMHVERFISMÁL

Lyfjaskil

Örugg eyðing lyfja eru eitt mikilvægasta umhverfisverkefni Lyfju. Lyf geta valdið skaða á umhverfinu og mega aldrei fara í rusl, vask eða klósett. Því miður mælast reglulega efni sem eru talin vera ógn við lífríki og vatnaumhverfi í sýnum Umhverfisstofnunar. Lyfja hvetur viðskiptavini til þess að skila gömlum lyfjum til eyðingar í apótek Lyfju.

Fyrsti lyfjaskilakassinn var tekinn í notkun á árinu 2020 en með framstillingu hans í verslunum Lyfju er vakin athygli á þessum mikilvæga þætti umhverfisverndar.

Öllum lyfjum sem afhent eru til eyðingar í apótekum Lyfju er komið í örugga eyðingu hjá fyrirtækjum sem hafa leyfi frá Umhverfisstofnun til að eyða slíkum úrgangi. Flutningskeðjan frá apótekum Lyfju til eyðingarfyrirtækis er jafnframt lokuð þannig að lyfin komast ekki í hendur óviðkomandi á leiðinni. Árið 2022 sendi Lyfja 10.965 kg. af lyfjum, sprautum og nálum í örugga eyðingu, sem er 8% meira magn en árið á undan.

Lyfjaskil

Kolefnisbókhald og kolefnisjöfnun

Árið 2022 losaði starfsemi Lyfju og dótturfélaga 458,1 tonn af gróðurhúsalofttegundum. Lyfja hefur gert samning við Kolvið, sem sér um kolefnisbindingu til mótvægis við losun Lyfju. Tveir áhrifamestu þættirnir í rekstri Lyfju eru losun vegna ferða starfsmanna til og frá vinnustað og urðun sorps.

SAMFÉLAG

Þriðja heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna snýr að heilsu og vellíðan, stuðla að heilbrigðu líferni og vellíðan í gegnum öll lífssins skeið. Áskoranir á Íslandi felast í breyttri aldursamsetningu, framboði og aðgengi að úrræðum og þjónustu eftir landssvæðum, langvinnum lífstílssjúkdómum, framboði nýrra lyfja og ofnotkun sýklalyfja, útgjalda til heilbrigðismála og mönnun heilbrigðisþjónustu.

Lágt lyfjaverð um allt land

Lyfja var brautryðjandi í samkeppni á apóteksmarkaði og hefur átt þátt í því að verð á lyfjum úr apótekum á Íslandi hafa lækkað að raunvirði undanfarna áratugi. Lyfja leggur áherslu á að kynna samheitalyf sem leið til að lækka lyfjakostnað og fræða almenning um samheitalyf. Þegar lyf eru keypt í Lyfju appinu eru samheitalyf alltaf boðin viðskiptavinum og þeim er raðað þannig að ódýrasta lyfið birtist alltaf efst. Lyfja býður sama lyfjaverð um allt land.

Lyfju appið – aðgengi að upplýsingum og sérfræðingum

Útgáfa Lyfju appsins hefur stórbætt aðgengi neytenda að upplýsingum og sérfræðingum.

Lyfja heldur úti Lyfjabókinni sem er gagnagrunnur upplýsinga um öll skráð lyf á Íslandi sem seld eru í apótekum. Lyfjabókin er tengd við Lyfju appið og notendur appsins geta með einum smelli fengið ítarlegar upplýsingar um lyf, þ.e. virkni, virk efni, markaðsleyfishafa, útlit taflna, notkun, aukaverkanir, milliverkanir, varúð og staðkvæmdarlyf.

820x312_fb-copy_1629713333321_1683543253265
Lyfju appið býður jafnframt upp á spjall við sérfræðinga sem vinna hjá Lyfju, sérþjálfaðir þjónustufulltrúar Lyfju svara fyrirspurnum frá viðskiptavinum í gegnum Lyfju appið og netspjall, alla daga frá kl. 10-22, og beina fyrirspurnum til viðeigandi sérfræðinga eftir efni.

Forvarnir

Lyfja starfrækir styrktarsjóð sem veitir árlega styrki til verkefna á vegum félagasamtaka sem teljast heilsueflandi og/eða hafa forvarnargildi. Úthlutað var úr styrktarsjóði Lyfju árið 2022 í þriðja sinn. Sjóðurinn styrkir árlega verkefni sem teljast heilsueflandi eða hafa forvarnargildi. Hér má finna allar nánari upplýsingar um sjóðinn.