Lyfja hf. gerir samstarfssamning við Parkinsonsamtökin

  • Mynd (tv): Sigurbjörn Gunnarsson framkvæmdarstjóri Lyfju hf., Reynir Kristinsson ritari Parkinsonsamtakanna og Stefanía Fanney Björgvinsdóttir vörustjóri lausasölulyfja hjá Lyfju hf.

Mánudaginn 10. júlí skrifuðu Sigurbjörn Gunnarsson framkvæmdarstjóri Lyfju hf. og Reynir Kristinsson ritari Parkinsonsamtakanna undir samstarfssamning.

Samningurinn veitir félagsmönnun samtakanna afslætti í apótekum Lyfju og mun Lyfja ennfremur styrkja Parkinsonsamtökin á samningstímanum með því að auglýsa í blaði og á vef samtakanna.

Parkinsonsamtökin

Parkinsonsamtökin á Íslandi voru stofnuð árið 1983 og er markmið þeirra að:

  • aðstoða sjúklinga og aðstandendur við að leysa úr þeim vanda og erfiðleikum sem sjúkdómnum fylgja
  • dreifa upplýsingum, veita fræðslu og styðja við rannsóknir vegna parkinsonveiki
  • vera vettvangur umræðu um sameiginleg vandamál félagsmanna
  • halda reglulega félagsfundi til skemmtunar og fræðslu
  • gefa út rit félagsins og halda úti vefsíðu til að miðla upplýsingum og fræðslu

Um sjúkdóminn

Parkinsonsveiki er hægfara hnignun í þeim hluta miðtaugakerfisins sem stýrir og samhæfir líkamshreyfingu. Einkenni sjúkdómsins koma fram vegna skorts á boðefninu dópamíni, sem heilinn framleiðir. Framleiðsla dópamíns minnkar vegna frumudauða í svonefndum sortukjarna (substantia nigra) í miðheila. Þegar einkennin koma fram hefur sjúklingurinn misst meirihluta dópamínfrumanna.

Áætlað er að Parkinsonsgreindir á Íslandi séu um 700. Algengast er að sjúkdómseinkenni komi fram hjá fólki á aldrinum 65-80 ára og talið er að 1% þeirra sem eru 65 ára og eldri hafi sjúkdóminn. Sjúkdómurinn greinist einnig hjá yngra fólki, og eru dæmi hér á landi um fólk á þrítugsaldri með Parkinsongreiningu.

Parkinsonsamtökin eru til húsa í Setrinu, Hátúni 10, 1. hæð og er heimasíða þeirra www.parkinson.is