Lyfja hf. fær Jafnlaunavottun VR
Lyfja hf, sem rekur verslanir undir merkjum Lyfju, Apóteksins og Heilsuhússins, hefur fengið Jafnlaunavottun VR, fyrst fyrirtækja á lyfjamarkaði. Vottunin staðfestir að Lyfja hf. greiðir konum og körlum sömu laun fyrir sömu eða sambærilega vinnu. Hjá Lyfju hf. vinna 332 starfsmenn í um 200 stöðugildum, 12% af þeim eru karlmenn.
„Við hjá Lyfju hf. erum stolt af því að hafa fengið Jafnlaunavottun VR fyrst fyrirtækja á lyfjamarkaði. Það staðfestir að launajafnrétti ríkir hjá fyrirtækinu. Þetta er ekki síst mikilvægt vegna þess að meirihluti okkar starfsmanna eru konur. Við leggjum áherslu á að við ákvörðun launa sé ætíð gætt að greidd séu jöfn laun fyrir jafn verðmæt störf og að þau viðmið sem lögð eru til grundvallar feli ekki í sér kynjamismunun, heldur séu rökstudd með skýrum rökum út frá verðmæti starfs. Það er ástæða til að þakka VR fyrir það frumkvæði sem félagið hefur sýnt í þessum málum, jafnlaunavottun er ein leið til að vinna að því að útrýma kynbundnum launamun í atvinnulífinu,“ segir Sigurbjörn Gunnarsson, framkvæmdastjóri Lyfju.
Stefán Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri VR, afhenti vottunina. Hann segir mikilvægt að jafnlaunavottun taki til ólíkra fyrirtækja og atvinnugreina og fagnar því að Lyfja hafi nú bæst í hópinn. „Jafnlaunavottun VR tekur bæði til fyrirtækja á almennum markaði og stofnana á hinum opinbera. Alls vinna rúmlega fimm þúsund starfsmenn á íslenskum vinnumarkaði undir því eftirliti sem Jafnlaunavottun VR veitir. Því stærri og fjölbreyttari sem hópur vottaðra fyrirtækja og stofnana er, því meiri áhrif hefur vottunin í baráttunni fyrir því að jafna laun kynjanna á vinnumarkaði.“
Stjórntæki fyrirtækja
Jafnlaunavottun VR var fyrst veitt vorið 2013. Hún er markviss leið fyrir atvinnurekendur til að meta stöðu karla og kvenna innan fyrirtækisins þegar kemur að launum og tryggja að launakerfi fyrirtækja og stofnana mismuni ekki starfsfólki sem gegnir sama eða sambærilegu starfi. Vottunin er þannig stjórntæki fyrir fyrirtækin og felur í sér viðurkennda aðferðafræði og viðmið. Vottunin byggir á jafnlaunastaðli Staðlaráðs Íslands sem gefinn var út í lok árs 2012.
Jafnlaunavottun VR felur í sér ítarlega úttekt á launum starfsfólks, starfaflokkun og öðrum þáttum sem hafa áhrif á kjör. Öll fyrirtæki og stofnanir á íslenskum vinnumarkaði geta sótt um Jafnlaunavottun VR, óháð stéttarfélagsaðild starfsmanna sinna.
Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri: Hallur Guðjónsson, starfsmannastjóri, Svava Þorsteinsdóttir, sérfræðingur á starfsmannasviði, Sigurbjörn Gunnarsson, framkvæmdastjóri, Stefán Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri VR og Unnur Guðríður Indriðadóttir, starfsmaður VR.