Greiðslu­þátttaka vegna kaupa á heyrnar­tækjum

Heyrn

Sjúkratryggingar veita styrk til heyrnartækjakaupa að andvirði 60.000 kr. eða 120.000 kr. eftir því hvort keypt eru tæki fyrir annað eða bæði eyru. Hægt er að sækja um styrk á fjögurra ára fresti.

Á fjögurra ára fresti getur þú fengið styrk hjá Sjúkratryggingum Íslands við kaup á heyrnartækjum ef þú uppfyllir ákveðin skilyrði:

  • Þú þarft að vera orðin/n 18 ára
  • Þú verður að vera sjúkratryggð/ur á Íslandi
  • Heyrnin þín (tónmeðalgildi) verður að vera á um eða yfir 30 dB til 70 dB á betra eyra.

Önnur viðmið gilda um börn og ungmenni og einnig fyrir einstaklinga með meira en 70 dB á betra eyra. Börn og ungmenni á Íslandi fá heyrnartæki sér að kostnaðarlausu.

Einstaklingar sem eru með meira en 70 dB á betra eyranu greiða 20% af heildarverði heyrnartækja og Sjúkratryggingar borga þá 80% á móti. Ef þú mælist með 70 dB eða meira á betra eyra ættir þú að fara í frekari endurhæfingu hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands.

Styrkupphæð heyrnartækis er 60.000 kr., eða 120.000 kr. fyrir heyrnartækjapar.

Þarf ég að sækja um hjá Sjúkratryggingum Íslands til að fá styrkinn?
Nei, við sjáum um að sækja um styrkinn fyrir þig. Þú greiðir heildarverð heyrnartækjanna og færð endurgreitt frá Sjúkratryggingunum um 2 vikum síðar.

Hvað þýðir meira en 30 dB á betra eyra?
Þegar þú hefur lokið heyrnarmælingu kemur í ljós hver þín heyrn er á báðum eyrum. Heyrnarskerðingin er ekkert endilega eins báðum megin. Og stundum heyrir þú betur með öðru eyranu. Ef heyrnin mælist um eða yfir 30 dB þýðir það að hækka þarf hljóð/tíðni upp í 30 dB þannig að þú heyrir það hljóð/tíðni.

Ég heyri aðeins illa með öðru eyranu, fæ ég styrkinn?
Ef þú heyrir vel á öðru eyranu (undir 30 dB) þá færðu ekki styrkinn frá Sjúkratryggingum Íslands.

Þarf alltaf heyrnartæki á bæði eyrun?
Stundum nægir að hafa tæki eingöngu á öðru eyranu. Sumir heyra það vel með hinu. Aðrir gætu heyrt virkilega illa eða ekkert og telja sig ekki fá neitt út úr því að nota heyrnartæki á því eyra. Sé staðan þannig má skoða hin svokölluðu CROS-tæki en um heyrnartæki er að ræða sem miðlar hljóði yfir í heyrnartækið á betra eyranu. Sumum finnst gott að nota CROS-tæki með hefðbundnu heyrnartæki til að  nema  allt umhverfi sitt. CROS heyrnartækið lítur alveg eins út og heyrnartækið sem er á hinu eyranu, einungis virkni þess er öðruvísi og því kallast það CROS (e. Contralateral Routing Of Sound).

Tekur stéttarfélagið mitt þátt?
Yfirleitt er best fyrir þig að athuga það hjá þínu stéttarfélagin þar sem einstaklingar geta átt mismunandi sjóðsstöðu innan þess og oft eru sjóðir milli stéttarfélaga ólíkir. Sum stéttarfélög bjóða upp á styrk sem er sérstaklega ætlaður til heyrnartækjakaupa. Hafðu samband við stéttarfélag þitt til að vera viss um rétt þinn.

Er afsláttur fyrir öryrkja?
Eldri borgarar og öryrkjar fá 5% afslátt og félagsmenn Félags eldri borgara fá 10% afslátt. Afsláttarkjörin eiga ekki við um heyrnartæki og stærri aukabúnað þeirra.

Hægt er að sækja um uppbót á lífeyri vegna sérstakra útgjalda, eins og t.d. heyrnartækjakaupa hjá Tryggingastofnun ríkisins, skráð sem heimilisuppbót og uppbót á lífeyri.

Umsóknarferlið:

  • Seljendur senda rafræna umsókn ásamt reikningi og heyrnarmælingu
  • Styrkur er greiddur inn á reikning einstaklings
  • Þegar styrkur hefur verið greiddur fer greiðsluskjal í Réttindagátt einstaklings

Við hvetjum þig til að hafa samband við TR og fara yfir þín mál hafir þú í huga að sækja um uppbót á lífeyri. Við getum ekki sótt um slíkt fyrir þig.